Sitja með Bónuspoka og smyrja brauð.
11.7.2014 | 12:24
Finnst dásamlegt að sjá viðbrögð fólks við mismunandi verslun viðskiptavina og þá helst ferðamanna. Einn minntist á þetta með að útlendingar væru að smyrja sér brauð og notuðu til þess borðin sem hægt væri að setjast við. Fannst þetta svona hálfgerð gremja yfir því að fólkið væri ekki að versla það sem væri í boði á kaffi- og veitingahúsum götunnar. Það er eins og hann geri sér ekki grein fyrir að fólk almennt veður ekki í seðlum og finnst oft skemmtilegra að gera sitt eigið nesti í stað þess að setjast inn í góða veðrinu og kaupa rándýrt bakkelsi eða mat. Saddur og ánægður viðskiptavinur gefur sér tíma til að versla og skoða sig um. Stundum er eins og íslensk verslun geri sér ekki grein fyrir að til að ná í viðskiptavini verður maður að aðlaga sig að vilja þeirra.
Í fréttinni er viðtal við konu sem hefur aðlagað sig að vilja viðskiptavina og er hæstánægð með sumarverslunina. Nefnir einmitt að rigningin hafi jákvæð áhrif, því þá komi fólk inn úr rigningunni og gefi sér tíma til að versla. Þetta kallast að læra af reynslunni, læra á hvaða verð sé boðlegt, hvaða vörur séu eftirsóttar og hvað viðskitpavinurinn vill. Jákvæðin, eftirtekt og vilji til að lifa af.
Ég fer sjaldan niður laugaveg en geri það þó annað slagið, en sjaldan sem eitthvað vekur áhuga minn til að taka upp budduna því vöruframboð er nær eingöngu miðað við ferðamenn og verðið eftir því. Spurning að setjast niður og gera þetta að aðlaðandi götu sem gaman er að skoða og eftirsóknarvert að versla á, bæði fyrir innlenda og erlenda.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/10/sitja_med_bonuspoka_og_smyrja_braud/
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hvort viltu íslenskt gæðakjöt eða erlent hormónasull?
10.7.2014 | 00:59
Það er svo gaman að við sem framleiðum hér kjöt undir efitrliti náum ekki einu sinni að markaðsetja okkur sem landið með hreina og heilnæma kjötið. Bændur mega varla snyrta á kúnum klaufarnar án þess að kalla til dýralækni með öllum þeim tilkostnaði sem það hefur í för með sér. Svo lambakjötið, sem gefur af sér eitthvað á milli 30 og 35 kg undan hverri rollu. Ekki er það nú mikið kjöt en hollt en hreint hlýtur það að vera, búið að vera á afrétt þar sem grasið er lífrænt og mengunarlaust svo langt sem það nær. Nautin úti í haga á beit og vöðvarnir styrkjast. Heilbrigt en væntanlega ekki eins mjúkt og það erlenda.
Ef ég fer svo til Sviþjóðar, Hollands eða hvert sem er innan Evrópu þá hugsa allir það sama. Ég er ekkert að fara að borða eitthvað erlent sull, sá einu sinni mynd af búi þar, sem var allt útatað í kúaskít. Uss uss uss. Annað en hér með allar ESB reglur, allt eftirlitið og svona hugsa allir. Mitt heimaland framleiðir besta og heilbrigðasta kjötið.
Af hverju eru þá kaupmenn að krefjast þess að flytja inn kjöt? Er allt í einu orðið betra að kaupa erlent kjöt, er allt erlent betra í augum kaupmannsins? Nei alls ekki það er álagningin sem er að lokka, þeim er nákvæmlega sama um hvaðan kjötið kemur, hvert það hefur ferðast og hvað það er orðið gamalt. Bara að fá innflutt.
Niðurstaða
Ég skil kaupmenn, þeir vilja fá hagnað og það gefur meiri hagnað að flytja inn kjöt
Ég skil þá sem dreymir um flottu steikina sem þeir fengu á fottu veitingahúsi þegar þau voru á ferðalagi í USA, Ítaíu eða Hollandi.
Ég skil bændur sem þurfa að rækta upp nautgripi og fé í samkeppni við lönd sem hafa sumar mun lengur en við og eiga ekki séns á móti þeim.
Ég skil samt ekki að það sé einhver stór hluti sem vilji flytja inn allt kjöt og kippa fótunum undan íslenskri framleiðslu. Hvernig ætlum við að geta flutt allt inn en ekkert út? Er svona erfitt að skilja það að búskapur kringum landið er forsenda þess að hægt sé að bjóða uppá ferðamennsku. Að hægt sé að búa þetta land okkar.
Er þetta enn eitt stríðið höfuðborgarbúar á móti landsbyggðinni?
Viðskipti og fjármál | Breytt 11.7.2014 kl. 11:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Háir vextir - lág verðbólga, lágir vextir - há verðbólga, þú tapar hvort sem verður
9.7.2014 | 14:43
Þegar Seðlabanki Íslands ákveður ár eftir ár að hafa hér háa stýrivexti er hann að gera fólkinu í landinu erfitt fyrir. Stýrivextir eru í raun verðmiðinn á hvað það kostar að fá lán.
Ég get leigt mér bíl og hann kostar visst mikið og þessu fínni bíl sem ég fæ mér þessu dýrari er leigan, en ég hef val, ég get leigt ódýran einfaldan bíl eða dýran með gæðum. Krónan aftur á móti er bara til í einni útgáfu, en það sem Seðlabankinn ákveður með stýrivöxtum er hvað það kostar fyrir bankanna að fá lánað fé hjá Seðlabankanum. Bankinn ákveður síðan hvað hann ætlar að græða á því að lána út þetta fé og því lánar bankinn út á hærra verði, þ.e hærri vöxtum.
Í eðlilegu samfélagi
Sé ég með hreyfanlega vexti þá hækka lánin mín sem því nemur, ég hef minna milli handanna, fyrirtækið sem ég vinn hjá hefur minna úr að spila og því verða engar fjárfestingar eða minni en áætlað var. Við vaxtahækkun verður eftirspurn eftir krónum, fjárfestar sjá tækifæri á að fjárfesti þeir eða leggi peninginn inn í íslenkan banka þá fá þeir betri ávöxtun en erlendis. Þannig að með aukinni eftirspurn á krónum hækkar gengið. Krónan verður sterkari. Útflytjendur hafa minni áhuga á að flytja út sína vöru þar sem það fæst minna fyrr hana í íslenskum krónum en þegar gengið er lágt. Það verður hagkvæmara að flytja inn vissar vörur heldur en að framleiða þær hér og innflutningur eykst.
Í öllum eðlilegum kringumstæðum þá helst þetta allt í hendur. Gjaldeyrisstreymi út verður meira við aukinn innflutning, minni útflutningur gerir minni gjaldeyrir inn en vaxtahækkunin gerir það að verkum að fleiri koma og fjárfesta eða leggja gjaldeyrir inn í banka hér, skipta í krónur og leggja inn í banka.
Hvað gerist aftur á móti þegar vextirnir eru alltaf háir, alltaf hræðsla við verðbólgu, alltaf verið að lokka inn fjármagnseigendur með sína peninga? Getur verið að fólk hætti að spá í að lánin eru dýr, að þjóðfélagið sé miðað við það að við greiðum allt of hátt verð fyrir lánin okkar til að halda uppi vaxtagreiðslum til fjármagnseigendanna.
Hvenær er ástandið eðlilegt? Getur verið að það sé einhvað rangt í þessu kerfi eins og það er í dag? Eigum við ekki að fá að upplifa það að við getum tekið lán fyrir húsnæði og þurfum ekki að greiða meirihlutinn af tekjunum okkar í vexti?
Brenglað samfélag, okkar samfélag
Verðtryggingin er ein ástæðan, hún blekkir okkur. Styrivextirnir hækka en það hefur engin áhrif á lánin mín það bara hefur góð áhrif finnst mér þar sem að það leggst minni verðtrygging á lánin. Hmmm er þetta ekki einhver öfugmæli? Getur verið að við séum orðin svo rugluð í þessu að við teljum að þegar Seðlabankinn hækki vexti þá komi það okkur til góða. Við erum að greiða minna í verðtrygginguna en gleymum að grunnvextirnir hækka en iss það breytir mig engu því ég er með fasta vexti, en jú kannski þá sem eru að taka ný lán en ekki mig.
Eðlilegt þjóðfélag hræðist hækkun stýrivaxta því það þýðir að ég hef minna á milli handanna. Stærri hluti teknanna fer í vexti. Lækkun stýrivaxta aftur á móti hefur það í för með sér að ég greiði minni vexti og hef meira á milli handanna. Get keypt meira fyrir mig og minna fer í að halda uppi fjárfestunum sem vilja fá háa vexti.
En af hverju er svona lítið land með svona viðkvæm viðmið vegna verðbólgu? Eða er kerfið allt byggt á því að hér ríki annaðhvort háir vextir og við höfum lítið á milli handanna eða lágir vextir og verðtryggingin dúkkar inn og lánin mín hækka og hækka.
Hver er þá niðurstaðan?
Verðtryggingin hefur gert það að verkum að hvernig sem árar þá eru bankastofnanirnar alltaf með háa vexti á okkur, annaðhvort í formi hárra vaxta eða það er hátt verðtryggingarálag þegar stýrivextir eru lágir.
Hvað væri hægt að gera?
Jú, hætta við verðtryggingu og hækka stuðulinn fyrir verðbólgu, það á ekki að hafa áhrif á verðbólgu ef fleiri en tveir kaupa sér nýjan sófa eða nýjan bíl. Ekki vera alltaf að láta eins og við þekkjum ekki umhverfið, ekki láta eins og við séum sjálfskipuð til að halda uppi þeim sem vilja fá ávöxtun á fjármagnið. 'ut með núverandi stefnu Seðlabankans og lækkum stýrivexti og hækkum verðtryggingarstuðulinn þannig að verðbólgan sé ekki talin há þegar það er ekki einu sinni þensla.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Missti Landspítalinn af lestinni?
8.7.2014 | 02:27
Nú þegar lögð er fram skýrsla um hugsanlegar lestarsamgöngur á milli Keflavíkurflugvallar og Umferðamiðstöðvarinnar að upphæð 102 milljarðar þá varð mér hugsað til byggingu nýs hátæknisjúkrahúss. Ég fann síðuna www.nyrlandspitlai.is en þar er seinasta frétt síðan í ágúst á síðasta ári og fjallar um hönnun hluta byggingarinnar. Ég var ekkert að hafa fyrir því að googla um þetta því ég áleit svo að fyrst þetta væri ekki á heimasíðunni þeirra þá væri ekki mikið að gerast í þessum málum.
Ég sá að með lögum nr. 64/2010 var stofnað opinbert hlutafélag ohf. "Nýr Landspítali ohf." og er markmið þessa hlutafélags að standa að undirbúningi útboðs byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Stofnhlutafé er 20 milljónir króna.
Svo stórt er spurt. Hvað varð um byggingaráformin? Missti landsspítalinn af lestinni? Þá á ég við, erum við sjálfum okkur lík og búin að missa áhugann og langar í nýtt leikfang, eitt stk. lest ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bankarnir geta ekki án ríkisvaldsins verið en getur ríkið verið án bankanna?
Í morgunblaðinu birtist grein með fyrirsögninni bankarnir geta ekki án ríkisvaldsins verið (sjá hér) en við lestur greinarinnar þá varð mér hugsað til þess hvað við gerum allt flókið. Hvað er svona flókið við það að svara hvort bankarnir, sem eru með skammarblett á sér allir með tölu fyrir ólöglegt athæfi, eða ef ekki ólöglegt þá allavega óvarlegt athæfi, séu okkur nauðsynlegir. Ætla ekki að fara að leggja dóma á það hér hversu syndugir þeir eru.
Að sögn Barrys Eichengreens, prófessors í hagfræði og stjórnmálafræði við Háskólann í Kaliforníu í Bandaríkjunum, þá er nauðsynlegt að ríkisvaldið setji bönkunum reglur en þær megi ekki vera of íþyngjandi. Það gæti komi í veg fyrir framþróun fjármálakerfisins og jafnvel ógnað stöðugleika þess. Mér finnst svo gaman að orðagjálfrinu hjá fræðingunum. Framþróun og stöðugleiki, íþyngjandi reglur, allt þetta eru fögur orð og hann veit mun meira um fjármálamarkaði en ég. Ég veit að við áttum banka sem voru með ríkisábyrgð og bankarnir fóru á hausinn og ríkið þurfti að greiða fullt af peningum.
Af hverju þurfum við bankana?
Allir eða flestallir sem fá laun, bætur, styrki, eða hvaða nöfnum hægt er að kalla greiðslu frá vinnuveitenda, ríki, lánasjóð, tryggingafélagi eða slíku, fá laun sín greidd gegnum banka. Seðlar eru ekki notaðir lengur nema þá kannski þegar það er verið að vinna svart. Slíkar bankafærslur eru einfaldar, peningarnir fara inn á reikning og svo tekur sá sem á reikninginn jafnt og þétt út eftir þörfum. Þetta krefst starfsfólks sem sér um allt þetta en flestir bankar sjá líka um að lána út peninga og þannig er hagnaður fenginn til að greiða kosnað við rekstur bankans en það er líka áhætta viðútlán. Fást peningarnir greiddir tilbaka? Banki sem hefur slíka starfssemi er með ríkisábyrgð og því mætti telja eðlilegt að ríkið hefði greiðan aðgang að bókhaldi bankans og öllu því sem bankinn er að gera og ætti rétt að fá upplýsingar um það sendar jafnharðan og eitthvað mikið væri að gerast.
Getur ríkið ekki gert þetta?
Ég er svo kröfuharður að fari bankarnir ekki eftir fyrirmælum ríkisins í einu og öllu þá sé ekki grundvöllur fyrir því að ríkis sé ábyrgðaraðili fyrir bankann. Þá er einnig hægt að spyrja sig ef hverju er ríkið ekki bara með bankastarfsemina sjálft. Áhættan hlýtur að vera mun minni. Vöruúrvalið hlýtur að verða einfaldara og þar af leiðandi minnkar áhættan enn meira. Af hverju þurfum við að einkavæða bankana, hvað græðir þjóðin á því? Hver segir að við þurfum að vera með afleiðuviðskipti? Hvers vegna eru við með fjárfestingastarfsemi í ríkistryggðum banka? Er það ekki mismunun?
Hvað sagði Seðlabankastjóri í þessari grein?
Hann rifjaði upp að á ráðstefnu SUERF fyrir tíu árum hefði aukin kerfisáhætta innan fjármálakerfisins verið til umræðu. Þá hefðu menn lýst þungum áhyggjum af því. Áhættan hefði hins vegar aukist til muna eftir ráðstefnuna, bæði hér á landi sem og í alþjóðlegu tilliti.
Áhættan eykst en stefnan er einkavæðing með ríkisábyrgð
Við vitum að stefna ríksisins er að selja sinn hlut í bönkunum en samt vita þeir að það er hætta á að bankarnir misstígi sig aftur vegna fjárfestingastarfseminnar, vegna hárra launa, vegna vegna vegna. Við munum þetta allt en fallegu orð fjármálasnillinganna hljóma svo vel í eyrum og það er hægt að gera þetta að svo flóknu ferli, svo flóknum gjörningum að enginn skilur hvað er um að vera. Af hverju segji ég það ? jú, fyrir hrun þá var málið einfaldlega þannig að Fjármálaeftirlitið, ríkið og alþjóðlegar peningastofnanir skildu ekki fyrr en of seint að allt var komið á hausinn. Allt voru þetta tilbúnir gjörningar sem enginn skildi og enginn fattaði að væru bara innantóm orð.
Af hverju hækkum við ekki innustæðutrygginguna?
Eitt skil ég ekki en það er af hverju við hækkum ekki innustæðutrygginasjóðina. Heyrði að það væri ekki hægt að reka banka sem þyrfti að hafa of háa tryggingasjóði?????? Hmm, ælta ekki að setja mig inní það því ég þarf þess ekki, bönkunum finnst það einfaldara að ríkið taki bara ábyrgð.
Hvað segir reynslan?
Reynslan segir okkur að við eigum ekki að treysta stjórnendum bankanna, við eigum ekki að treysta starfsfólki bankanna og við getum ekki einu sinni treyst eftirlitsstofnunum á vegum ríkisins. Fjármálaeftirlitið brást algerlega í hlutverki sínu eða kannski hægt að segja að ríkið brást með því að hafa stofnunina undirmannaða. Er þá ekki nokkuð víst að við getum ekki látið þetta koma fyrir aftur. Bankarnir fóru sínu fram, yfirmönnum var ekki hægt að treysta og ríkið stóð eftir sem misnotað bákn og almenningur varð að taka á sig og fórna mörgu fyrir svik og léleg vinnubrögð örfárra.
Hvað gerir Seðlabankinn til að rétta hlut landsmanna vegna lélegra vinnubragða bankans?
Svar: Ekkert jákvætt, margt neikvætt, háir vextir svo fólkið greiði hagnað bankanna, gjaldeyrirshöft svo fjársterkir græði og svo framvegis.
Niðurstaða.
Lærdómur af bankahruninu? Mjög mikill
Framkvæmd og eftirfylgni ríkis og seðlabanka af áunnum lærdóm = enginn
Væri gott að velta þeirri spurningu upp af hverju? Er það hagur einhvers að ekki sé farið eftir þeim lærdóm sem áunnist hefur?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Krónan á 80 aura og allir hampa Seðlabankastjóra
6.7.2014 | 02:26
Krónan á 80 aura stykkið.
Stundum velti ég því fyrir mér hvað það er hræðilegt að vera ekki frægur á Íslandi. Ef þú ert ekki frægur, ert kominn af ríku fólki eða verið í sjónvarpi, þá er erfitt að koma því sem þú segir þannig til skila að einhver taki mark á þér. Hér sitja allir og þegja þegar Seðlabankastjóri og hans menn, gefa afslátt af krónunni ár eftir ár svo að fólk skipti erlendum gjaldeyrir fyrir íslenskar krónur. Einfalt reiknisdæmi sem segir okkur að eigi ég erlenda mynt að andvirði 100.000 evra þá get ég keypt krónur og ég fæ hverja krónu á 80 aura. Hverjum hefði einhverntíma dreymt um það að kaupa krónu á 80 aura.
Hvaðan kemur hugmyndin eða hver er tilgangurinn?
Er virkilega verið að gera þetta einhvernstaðar annarstaðar? Og til hvers í ósköpum er þetta gert? Þetta er ekkert eins og þetta sé eins dags tilboð, þetta er búið að vera einhver ár. Hver er tilgangur að fólk sem á pening fái krónur á afslætti. Af hverju látum við fara svo með okkur. Við erum að gefa 20 aura af hverri krónu og hvað er búið að skipta inn miklu fjármagni. Hvenær kemur að því að þetta fólk skiptir þessu aftur yfir í erlenda mynt og hvað gerist þá? Tilangurinn segja þeir að sé að fá inngjaldeyri en hvers vegna á þennan hátt?
Húsnæðisbólan
Úff, jú Seðlabankinn setti skilyrði, fólk varð að fjárfesta í fyrirtækjum eða fasteignum. Fjöldinn ákvað að kaupa fasteignir því það er annað augljóst dæmi. Þetta efnaða fólk kaupir fasteign, verður venjulegur markaður uppiskroppa með íbúðir því eðlilegt kerfi vinnur þannig að ég kaupi íbúð og sel aðra á móti. Nú kemur inn fé að utan og það fólk kaupir og engin eign losnar í staðin. Þetta er oft stóreignafólk, fyrrverandi stóreignafólk sem flutti út fé, arð fyrirtækja sem fóru á hausinn hjá sumum, sumir bara hagsýnir og áttu eign erlendis, en allt er þetta fólk sem á fé og fær tækifæri að kaupa fasteign með afláttarkrónum og spennir upp markaðinn. Sú spenna helst væntanlega nokkur ár og þá verður væntanlega búið að aflétta gjaldeyrirshöftunum. En hvað gerirst þá?
Skipti yfir í erlenda mynt
Það kemur að því að gjaldeyrishöftunum verður aflétt, sennilega mátulega til að fólk sem keypti fasteignir er búið að uppfylla tímamörkin sem þurfti að eiga eignirnar, man ekki hvort 5 eða 6 ár en skiptir ekki öllu, fólk nær að selja á toppverði og allir hraða sér að selja, verð fellur aftur og þeir landsmenn sem höfðu keypt á háu verði lenda í því að veðhlutfall á eignunum hækkar og sama svekkelsið endurtekur sig. Fólkið sem átti erlenda gjaldeyrinn í upphafi skiptir nú þessum íslensku krónum með fyrst sínum 20% hagnaði sem það fékk við skiptin og síðan hagnaðinum af fasteignakaupunum. Krónan hríðfellur, gjaldeyrisforðinn hverfur. Við erum í sama veseninu. En í stað þess láta stórefnafólk fá hagnað uppá tugi prósenta þá hefðum við geta styrkt innlenda framleiðslu
Hvað hefðum við geta gert?
Við hefðum geta látið þennan pening í innlenda framleiðslu sem hefði skapað okkur útflutningstekjur, sem sé gjaldeyri. Hvað verður það mikill peningur sem fer út aftur jú það eru tugir milljarðar sem fara í það að greiða peningafólkinu sinn hagnað, þegar peningafólkið fer með peninginn út aftur. Við erum trúlega að fara að ráða þennan snilling seðlabankastjóra aftur og allir hrósa honum og hampa. Hann fór í mál við ríkið til að hann fengi meira, hann fékk greiddan málskostnað svo hann fengi meira, en hvað gerði hann fyrir okkur fólkið í landinu? Jú, peningafólkinu gaf hann afslátt af krónunni, heldur stýrivöxtum háum svo við innlenda fólkið greiðum himinháa vexti og fyrirtæki eiga mjög erfitt með að keppa við erland fyrirtæki sem hafa aðgang að lágum vöxtum.
Ef maður hefur trú á að því sem maður hefur í höndunum sé gott þá gefur maður ekki afslátt, maður styrkir ekki þann sem styrkinn hefur og ber niður þann veika. Maður styrkir þann veika, og fær öflugar útflutningsgreinar og fleiri. Fyrir sama fé og við erum að gefa í afslætti gætum við reist risastór gróðurhús og flutt út grænmeti og blóm. við gætum verið sjálfbær í allri grænmetisframleiðslu. Við gætum styrkt rafbílavæðinguna með hagkvæmum lánum til þeirra sem versla sér slíkan bíl og sparað þvílíkan pening í bensín og olíu og bara styrkja fyrirtæki sem eiga möguleika á útflutningi en vantar aðgang að rekstrarfé á sanngjörnum vöxtum. Það er svo margt sem hægt er að gera fyrir þennan pening sem verið er að gefa þeim sem aurana hafa. Bara af því að enginn tekur mark á þeim sem er ekki frægur, er ekki þekktur, er ekki ríkur. Eða er það ekki málið heldur að þeir sem eru að hagnast á þessu eru stóreignamenn og hverjir ætli að það séu í okkar ríkisstjórn sem hampa þessum aðgerðum og telja þær góðar? hmm skrítið hvað þetta á vel við en enginn þorir að segja neitt, allavega ekki þeir á þingi, því hmm, þú gætir orðið af góðu starfi þegar þú hættir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tabú
20.6.2014 | 15:39
Ligg andvaka og hugsa um gildi laga og þann feril sem þau fara áður en þau eru sett. Að mörgu er að hyggja en við nánari skoðun vitum við að lögin eru samin af fólki og fólk hefur misjafna skoðun á hverju máli, misjafna reynslu, misjafnar væntingar. Þjóðfélagið breytist og það sem á við í dag er kannski úrelt á morgun. Ég er loksins farinn að skilja að til að verða góður lögfræðingur verður maður að lesa óhemju mikið til að skilja af hverju við höfum þetta svona en ekki hinsegin eða á annan veginn en ekki hinn. Málið er samt ekki svo einfalt í mörgum tilvikum. Það er einfaldlega ekki nægilegt að vita af hverju, því hvað gerum við þegar við sjáum að þetta gengur ekki og lögin eru í raun samin af hugsjónarfólki sem hefur lagt sig fram til að skilja viss málefni út í gegn. Þau fylgja oft því munstri sem skapast hefur á hinum norðurlöndunum og reynt að aðlaga að íslenskum aðstæðum eða að okkar fámenni í vissum tilvikum, það er bara einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir öllum hugsanlegum aðstæðum. Ennþá erum við í grunninn gott fólk og hjálpum hvort öðru þegar á reynir en það sem ég er að tala um að sé ekki nægilegt að skilja bara af hverju, eru mál sem eru tabú í þjóðfélaginu.
Ofbeldi er tabú í þjóðfélaginu. Við þegjum þunnu hljóði yfir því að við heyrðum að í næsta húsi var karlinn eitthvað að tuska konuna, börnin fóru að gráta, brothljóð, öskur, dynkir, eitthvað sem veldur því að við erum nokkuð viss að um ofbeldi er að ræða en þetta er Gunni í næsta húsi, hann sem er svo skemmtilegur og hann myndi ekki gera flugu mein, hann elskar konuna sína og ekki honum að kenna að hún virðist vera orðin svo fáskipt, talar varla við kjaft og heldur sig mest inni bara. Ekkert skrítið að hann fái nóg annað slagið. Krakkarnir verða bara smá hrædd en hann myndi aldrei leggja hendur á þau eða konuna.
Svona er þetta, konan kúguð og veit að ef hún skilur við hann verður hann brjálaður svo hún ákveður að harka út í einhver ár þangað til að börnin verða eldri, hann var nú svo blíður eftir að hann barði hana síðast og gaf henni nýja saumavél, og þar á undan nýja tölvu og þar á undan keyptu þau 50 tommu flatskjáinn sem þeim hafði alltaf langað svo í en Gunni ekki viljað kaupa.
Einn daginn fékk konan nóg og þegar hann hafði blindfullur barið hana eins og harðfisk af því að hún fékk meira útborgað en hann og honum fannst hún vera að ögra sér með því að vera að státa sig af upphæðinni. Hún gat ekki meir, hún hreinlega snappaði", hann gerði aldrei neitt á heimilinu, hún vann 2 tímum lengur en hann til að fá svipuð laun útborgað, hún kom heim dauðþreytt og þá var hann oft fullur, heimtaði mat, heimtaði föt, heimtaði kynlíf, heimtaði og krafðist og þegar hún í einfeldni sinni var ánægð með sig þá fékk hún að finna fyrir því. Hún væri ekki betri en nokkur drusla, og ætti að halda sig á mottunni og bla bla bla. Hún snappaði" og tók í bræði sinni styttuna sem var á stofuborðinu sem hún datt á og braut, styttan brotnaði ekki, bara borðið og eflaust einhver rifbein í henni. Hún tók styttuna og barði hann í höfuðið og hann höfuðkúpubrotnaði. Hún hringdi á sjúkrabíl, löggan kom og hún var dæmd.
Hún hafði aldrei kært hann, hún hafði aldrei sagt annað en að hún hefði dottið eða hestur sparkað í sig einu sinni þegar hann kýldi hana svo fast. Hún skammaðist sín að segja öðrum frá því að hún væri beitt ofbeldi. Sönnunargögnin lágu fyrir, styttan, játning hennar, og hann kærði hana auðvitað auk þess að þegar um svo alvarlegt mál er að ræða þá grípur ríkið inní.
Hún þarf að sitja inni. Hún missir forsjá barnanna, því hann þarf að hefna sín á henni og þó honum þyki vænt um börnin að einhverju leiti þá er það meiri friðþæging að taka börnin frá henni heldur en að hugsa um hag barnanna. Þó þau grátbiðji um að vera hjá mömmu en ekki hjá pabba sínum þá er bara litið á þetta sem geðshræringu útaf af öllu sem gerðist. Nágrannarnir segja við eftirgrennslan yfirvalda að hann skvetti stundum í sig og sé smá skapstyggur en þvílíkan öðling sé varla að finna. Hún hafi aftur á móti verið svo þung orðin og haldið sig innandyra. (sem er ef lesandi skilur það ekki, dæmigert fyrir konur sem eru beittar ofbeldi, auk þess að börnin losna aldrei við þær afleiðingar sem ofbeldi hefur haft á þau)
Hvernig er hægt að koma í veg fyrir slíkt óréttlæti, kúgun, ofbeldi, niðurlægingu eða hvaða ofbeldi sem er beitt, leiði til þess að sá sem er fórnarlambið verði talinn sökudólgur? Sem betur fer er þetta dæmi mitt undantekning en samt að hluta til úr sænskum dóm, en bara að hluta til. Hitt er skáldað upp úr þeim aragrúa af dómum sem ég er búinn að lesa.
Hvernig getum við komið í veg fyrir slíkt? Jú með því að tilkynna í hvert sinn sem við verðum vör við ofbeldi, í hvert sinn sem okkur grunar að um ofbeldi sé að ræða, og alltaf alltaf þegar við vitum að börn eru á heimilinu. Stundum sjá menn að sér ef tekið er á málunum strax og leita sér hjálpar. Rannsóknir sýna að ofbeldi erfist, drengir sem sjá föður sinn berja móður sína, eru líklegri en hinir að berja sínar konur þegar þeir eldast. Dæturnar eru líklegri til að verða kúgaðar og þola yfirgang. Stoppum ofbeldi með kærleik. Ekki bíða þar til að einhver annar gerir hlutina sem þér ber alveg eins skilda til að gera. Við vitum hvað lögin segja og í svona tilfelli þurfum við ekki að hugsa útí það heldur hvað segir samviskan okkur? Er eðlilegt að horfa uppá ofbeldi og aðhafast ekki neitt? Þjófélagið breytis og mennirnir með svo tökum okkur til og verðum leiðinleg og hringjum á lögguna þegar við sjáum eða verðum vör við ofbeldi. Aðstoðum konuna, börnin, sýnum þeim kærleika, ást og umburðarlyndi því þó þau hati þig fyrir að þú skiptir þér af og þú veður drullusokkur, afskiptasemin uppmáluð, þú verður sá sem gerðir rangt að þeim finnst. Þú veist betur, þú veist að sá tími kemur að þau þakka þér. Bjargaðu lífi þeirra sem þurfa að þola ofbeldi, ekki bara treysta á að lögin dæmi þann sem hefur gert rangt. Lögin bæta ekki sálarlíf barnanna. Lögin eru ekki bara til að refsa heldur til að varna því að ofbeldi sé framkvæmt. Lögin leggja þá skildu á hendur þér að sjáir þú manneskju í hættu og þú getur forðað því að hún láti lífið eða slasist þá ber þér að koma henni til aðstoðar og það getur þú gert með því að hringja á lögregluna. Refsing er fyrir eitthvað sem er gert í trássi við lög og reglur, en við getum oft stoppað það áður en það fer svo langt. Lífið er oftast best þegar við getum lifað því í sátt við lög og menn og í sátt við okkur sjálf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Virðum skoðanir annarra og lítum okkur nær.
29.5.2014 | 13:19
Svona af því að umræðan á facebook og í samfélaginu er um ummæli einhverra kvenna í pólitíkinni, um breytta staðsetningu lóðar undir mosku sem var úthlutað, um orð Salmans Tamini um að honum finnist rétt að handhöggva þjófa og fleiri orð sem fallið hafa í hita leiksins. Hver og einn hefur rétt á sínum skoðunum og hver og einn hefur rétt að iðka sína trú en við þykjumst vera stolt af því að við séum þjóð sem virðir jafnrétti hér á landi. Mikið er talað um hvernig aðrir virði ekki konur, hvernig aðrir virði ekki börn og fram eftir götum og er það gott eitt að menn geri sér grein fyrir því að það eigi að virða rétt annarra en svo kemur það sorglega. Í skýrslu sem var unnin fyrir Félags- og tryggingamálaráðuneytið 2010 um ofbeldi í nánum samböndum, kemur fram að rúmlega 22% kvenna á aldrinum 18 80 ára hafa verið beittar ofbeldi einhvern tíma frá 16 ára aldri í nánu sambandi. Í meira en 70% þessara tilvika var áfengi með í för en samt virðum við rétt þeirra sem vilja drekka. Þetta er á Íslandi og meðal íslendinga. Erum við sem þjóð að virða rétt kvenna? Erum við þjóð sem viðrum rétt allra?
USA er með dauðarefsingu, en samt eru þeir oft kallaðir manna kristnastir. Við Evrópubúar höfum sett af stað 2 heimstyrjaldir og erum við þó kristnir. USA er alltaf í stríði. Hér á landi erum með kerfi þar sem einhverjir komust upp með setja heila þjóð á hausinn með þeim afleiðingum að fjöldi manns hefur gefist upp á lífinu, fjöldi manns flúði land, fjöldi manns leið illa og missti heimili sín. Nú er aðalhitamálið eitthvað sem er framandi, eitthvað sem hægt er að benda á og segja, þetta viljum við ekki, en gleymum að líta okkur nær og sjá hvað það er sem við gætum gert betur. Ég á tengdason sem á móðir sem kemur frá landi sem er eyja fyrir utan afríku, þar lifa öll trúarbrögð í sátt og samlyndi. Trúarbrögð er andlegur hlutur sem hefur ekkert að gera með það sem gerist í einræðisríkjum eins og flest þessi múslímalönd eru. Hér á Íslandi höfum við lög sem við reynum að lifa eftir og þau gilda um alla sem búa hér á landi og því auðvelt að stoppa eitthvað sem fer úr böndunum og hræðsluáróður er algengur þegar kosningar eiga í hlut en það er ótrúleg hvað fólk lætur ginnast.
Ég hef oft ákveðnar skoðanir á hlutunum og er örugglega með fullt af fordómum en ég reyni að læra á hverjum degi að við erum ekki yfir aðra hafin, allir eiga sinn rétt. Sumir dýrka náttúruna og vilja friða hana og blása svo út þegar kemur mynd af lambi sem tófan er búin að ráðast á. Þá heitir þetta dýrbítur og á að drepa allar tófur, en í hinu orðinu á náttúran að vera óskert. Við skiljum ekkert í því að verið sé að drepa öll villtu dýrin í Afríku og um leið og það kemur ísbjörn hér á land þá er hann drepinn. Hvalveiðar, við veiðum hvali af því að þeim fjölgar svo og éta allan fiskinn frá okkur segja sumir, en náttúran á að vera óskert segja þeir í hinu orðinu. Einhver hreytir út úr sér að rússneska rétttrúnaðarkirkjan sé bla bla bla af því að Rússland er að setja sig uppá á móti samkynhneigðum. Hvernig var máltækið.... að hengja bakara fyrir smið... Allir hafa rétt á skoðunum og öll eigum við að virða lög þessa lands og á meðan það er gert þá erum við í góðum málum.
Hvernig væri að við færum að skrifa um aðbúnað aldraðra, húsnæðisvandamálin, öryrkja, skólakerfið, börnin, lögregluna, ofbeldi, launajafnrétti innan opinbera geirans og almennt, bankana og aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka og fleira og fleira sem þarf að taka á. Hvernig væri að hætta að mála skrattann á vegginn yfir því sem er framandi og kynna sér hvernig sum þjóðfélög geta lifað í sátt og samlyndi með ólíkar trúarskoðanir. Hvernig væri að gefa öllum tækifæri á að koma sínum málum í viðunandi horf. Hvernig er með öryrkja, er ekki hluti af því að fólk þarf aðstoð til að komast í rétta vinnu þar sem það getur unnið við sitt hæfi, sumir geta unnið hluta úr degi við réttar aðstæður og myndi líða betur andlega að fá tækifæri að sjá sér farborða að hluta til. Atvinnulausir sem hafa misst kjarkinn að koma sér útá vinnumarkaðinn og vantar aðstoð til að komast af stað aftur. Eldri borgarar sem langar að komast á elliheimili þar sem er félagsskapur eða aðrir sem vantar smá aðstoð til að geta verið heima í sínu umhverfi. Virkjum sköpunargleðina og finnum lausnir á þeim vanda sem fyrir er en blásum ekki út mál sem eru okkur framandi og gætu verið eitthvað af því að það eru einhverjir í öðrum löndum sem hafa önnur lög, sem eru ekki okkur að skapi. Í tíð Hitlers voru sett lög í Þýskalandi sem hægt er að kalla ólög en þeir sem óhlýðnuðust þessum ólögum voru að fremja refsiverðan verknað samkvæmt þeirra lögum, þó þeir væru að gera það sem rétt þykir á flestra mælikvarða. Gerum betra þjóðfélag með aðgerðum sem eru til bóta fyrir alla sem þurfa á því að halda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verkfall grunnskólakennara
15.5.2014 | 17:14
Verkfall
Verkfall grunnskólakennara er ekki sama og verkfall framhaldsskólakennara. Þetta eru tveir aðskildir hópar og því ekki grunnskólakennurum að kenna þeir hafi verið jafn illa launaðir og ákveðið að fara í verkfall. Grunnskólakennarar eru búnir að bíða þolinmóðir í 2 ár eftir að nýjir samningar verði gerðir en þolinmæði þeirra á þrotum.
Hverjum er um að kenna?
Margir foreldrar fussa og sveia yfir því að þurfa að taka sér frí, taka af sumarfríinu, af því þau eiga barn sem getur ekki verið eitt heima og ekki hægt að taka barnið með í vinnuna og ég skil vanda þeirra vel. Allt þessum bölvuðum kennurum að kenna. En hvers vegna er skuldinni alltaf skellt á þann sem fer í verkfall? Af hverju stendur fólk ekki upp og segir við viljum að sveitarfélögin greiði kennurum mannsæmandi laun"? Af hverju stendur fólk ekki upp og segir nú eru að koma kosningar og við kjósum bara það lið sem vill mannbætandi stefnu"?
Hengja bakara fyrir smið
Af hverju er verið að nota fötluð börn sem refsivönd á kennara? Þeir eru svo slæmir að gefa ekki undanþágu, skrifar einhver kona og fleiri taka undir vúúúúúú hvað kennarar eru slæmir og ómannúðlegir". Hvaða bull er þetta, er þetta ekki sveitarfélaginu að kenna? Er það ekki samfélagið sem leggur meiri áherslu á annað? Eiga kennarar að gefa einum hópi undanþágu þegar það er sveitarfélaginu að kenna að ekki er staðið betur við bakið á þeim sem eiga fötluð börn. Þetta er ekki eini hópurinn sem hefur það slæmt, það eru langveik börn, börn sem þjást af krabba eða öðru sem foreldrar hafa þurft að hætta vinnu til að geta séð um barnið og fá ekkert fyrir eða mjög lítið. Það eru ekki bara fötluð börn sem líða vegna verkfalls, það eru svo margar ástæður fyrir því að foreldrar þurfa að vera heima, t.d. því þau hafa engan að leita til um hjálp og jafnvel langt komið með sumarfríið í veikindi barnsins. En hvað eiga þá kennarar að hætta við verkfall af því að samfélagið styður ekki við bakið á þeim sem þurfa á hjálp samfélagsins að halda?
Okkar val
Hvernig væri að hætta þessu væli alltaf hreint og taka lífinu eins og það er, ekki eins og við vildum að það væri. Hvernig væri að horfa framan í sjálfan sig og spyrja sjálfan sig, hvað ætla ég að kjósa í næstu sveitastjórnakosningum? Hvernig er stefna flokkanna og hver er mín reynsla af þeirri stefnu síðustu 4 árin? Í hvað hafa peningar sveitarfélagsins farið? Snýst rekstur sveitafélagsins um fjárfestingar og atvinnurekstur sem er ekki að borga sig? Eru sveitarfélögin að gambla með peninga og eyða í eitthvað sem hefur ekkert að gera með að vera í verkahring sveitarfélaga?
Hættum að láta eins og sveitastjórnarmenn séu eitthvað sem er óháð okkur sjálfum. Við erum sveitarfélagið, við ráðum hvernig við viljum hafa þetta. Hættum að hugsa um sveitarfélagið sem einhverja stofnun sem hefur sjálfstæðan vilja. Þjóðfélagið er eins og við gerum það og allir þeir sem sitja við stjórnvölinn eru manneskjur ekki vélmenni.
Flótti úr stéttinni
Grunnskólakennarar eru með skammarleg laun og ef við greiðum ekki laun sem hægt er að lifa af þá fara góðu kennararnir í eitthvað annað, skipta um starfsvettvang, flytja erlendis. Konan mín er kennari og hún sagði áðan, hvernig væri að fara til Svíþjóðar, þar fær maður helmingi hærri laun og getur verið stoltur af starfinu sínu. Henni var boðið rúmar 30.000 sænskar krónur fyrir leikskólakennarastarf í Stokkhólmi í fyrra. Við hefðum geta greitt leigu, mat og rekstur fjöskyldunnar fyrir hennar laun og megnið af mínum launum til að greiða inná sparireikning eða ferðareikning eða til að greiða niður skuldir. Og þá segir einhver af hverju drullið þið ykkur ekki þá"? Hmmm, svara ég þá, og flýja af hólmi, vandamálið hverfur ekki fyrir það, ég er íslendingur og vill að kennarar geti verið stoltir af laununum, fyrir sitt starf og geti haft í sig og á.
LauninVið vitum öll hversu mikilvægt það er að hafa góðan kennara, við höfum öll verið í skóla og eflaust lent á kennara sem var leiðinlegur og nennti varla að sinna starfinu sínu. Við endum með grömpí" kennarastétt ef þau geta ekki lifað af laununum sínum eins og aðrar menntastéttir. Við erum að tala um 5 ára háskólanám. Jafn langt og lögfræðinám, lengra en viðskiptafræðinám, lengra en iðnmenntun en hvar liggja launin? Jú, ómenntaður starfsmaður í verslun telst ekki vel borgaður ef hann er með jafnhá laun og kennari svo einhvað sé nefnt.
Ég styð launakröfu kennara og tel að samfélagið hafi neytt þá útí þessar verkfallsaðgerðir og því er það okkar verk að þrýsta á sveitarstjórnarfólk að semja sem fyrst.
Bloggar | Breytt 16.5.2014 kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er stefnubreyting stjórnmálaflokka og svik við kjósendur orðin hefð?
22.2.2014 | 13:45
Fyrir þarsíðustu kosningar var VG einn þeirra flokka sem fékk fjölda atkvæða vegna ótvíræðrar stefnu sinnar í Evrópumálum. Gefið var út skýrt og greinilega fyrir kosningarnar að flokkurinn myndi ekki styðja aðildarumsókn að ESB. Sem einn af sigurvegurum kosninganna virtist eins og atkvæðamagnið og setan í ríkisstjórn, hafi stígið þeim til höfuðs, því þremur mánuðum eftir kosningar var 180 gráðu stefnubreyting og VG allt í einu orðið hliðhollt aðildarumsókn. Þann 21. júlí 2009 birtist grein í Smugunni eftir Hjörleif Guttormsson þar sem hann gerir grein fyrir afstöðu flokkanna fyrir kosningar og hvernig VG, þremur mánuðum eftir kosningar, snýr baki við kjósendum. ( Sjá Hér)
Síðan þá hefur margt gerst, nýjar kosningar og kjósendur sýndu svart á hvítu að þú svíkur ekki kjósendur og VG tapaði miklu fylgi, trúlega að hluta til vegna stefnubreytingar sinnar en einnig vegna setu sinnar í ríkisstjórn og vonbrigði fólks við lausn ríkisstjórnarinnar á erfiðu verkefni. Í kosningunum 2013 hlaut VG 7 þingmenn en hafði verið með helmingi fleiri þingmenn eða 14, eftir kosningarnar 2009. (sjá hér)
Nú er komin fram þingsályktunartillaga um að draga ESB umsóknina til baka. Hætta við ferlið án þess að leyfa þjóðinni kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu. En hverju var lofað fyrir kosningar í þeim efnum? Í DV 23. febrúar 2013 (sjá hér) kemur skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn samþykktil á landsfundi að draga umsóknina til baka og sækja ekki aftur um nema eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla hefur gefið svar um vilja þjóðarinnar. Samt sem áður var, samkvæmt DV, lofað í kosningabæklingi á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins að fólkið myndi kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort haldið yrði áfram ESB viðræðum (Sjá hér). Þennan bækling mun vera búið að fjarlægja af síðunni. Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar kemur skýrt fram hverju flokkurinn lofar. Þar stendur (sjá hér) Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan - þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðargreiðslu á kjörtímabilinu.
Hvað getum við sagt um þetta. Jú, Sjálfstæðisflokkurinn lofaði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar en var að öðru leyti skýr í sinni afstöðu um að slíta viðræðunum. Hér er að vísu kosningasvik og jú stefnubreyting miðað við það sem lofað var. Spurningin er af hverju er ekki hægt að standa við einfalda hluti. Hvað er það sem fær heilan flokk að breyta afstöðu sinni þegar búið er að ganga til kosninga og þingmenn eiga að framfylgja því sem þeir lofuðu að standa fyrir?
Niðurstaða mín er því sú, að þó svo að Sjálfstæðismenn hafi svikið það loforð sem gefinn var út fyrir kosningar þá sé það ekki eins alvarleg svik og þegar VG setti stafina sína við umsókn að ESB. Augljóst er að sjálfstæðismenn voru ekki á eitt sáttir um hvort halda ætti atkvæðagreiðslu um slit viðræðna eða hvort aðeins ætti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu við upphaf nýrra viðræðna.
Trúlega er hvergi hægt að finna eitt lagaákvæði um það að ólöglegt sé að beyta fólki blekkingum með innihaldslausum kosningaloforðum nema í lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 en þar má meðal annar finna í a. lið 117. gr. að bera á mann fé eða fríðindi til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, að svipta mann eða ógna manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni, að heita á mann fé eða fríðindum ef kosning fari svo eða svo, að torvelda öðrum sókn á kjörfund eða til utankjörfundarkjörstaðar, svo og að beita þvingunarráðstöfunum í sambandi við kosningar.
Þetta ákvæði tekur ekki á loforði eins og um það hvort það sé saknæmt að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu og svíkja það svo eða hvort lofað sé að sækja ekki um aðild að ESB en gera það samt. Því er hægt að segja að hér erum við að tala um siðferði, heiðarleika og traust og hvort þingmenn standi undir því. Hingað til virðist það ekki hrjá nokkurn þeirra þingmanna sem sitja á Alþingi þó svo að maður eigi ekki að alhæfa. Ég minni þingmenn bara á að þeir eiga að fara eftir sinni eigin sannfæringu en í 48. gr. Stjórnarskrárinnar segir: Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Þetta hlýtur því að eiga líka við það að þingmenn séu ekki bundnir við það sem þingflokkurinn ákveður ef það sé á móti sannfæringu tiltekins þingmanns.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)