Er stefnubreyting stjórnmálaflokka og svik við kjósendur orðin hefð?

Fyrir þarsíðustu kosningar var VG einn þeirra flokka sem fékk fjölda atkvæða vegna ótvíræðrar stefnu sinnar í Evrópumálum. Gefið var út skýrt og greinilega fyrir kosningarnar að flokkurinn myndi ekki styðja aðildarumsókn að ESB. Sem einn af sigurvegurum kosninganna virtist eins og atkvæðamagnið og setan í ríkisstjórn, hafi stígið þeim til höfuðs, því þremur mánuðum eftir kosningar var 180 gráðu stefnubreyting og VG allt í einu orðið hliðhollt aðildarumsókn. Þann 21. júlí 2009 birtist grein í Smugunni eftir Hjörleif Guttormsson þar sem hann gerir grein fyrir afstöðu flokkanna fyrir kosningar og hvernig VG, þremur mánuðum eftir kosningar, snýr baki við kjósendum. ( Sjá Hér)

Síðan þá hefur margt gerst, nýjar kosningar og kjósendur sýndu svart á hvítu að þú svíkur ekki kjósendur og VG tapaði miklu fylgi, trúlega að hluta til vegna stefnubreytingar sinnar en einnig vegna setu sinnar í ríkisstjórn og vonbrigði fólks við lausn ríkisstjórnarinnar á erfiðu verkefni. Í kosningunum 2013 hlaut VG 7 þingmenn en hafði verið með helmingi fleiri þingmenn eða 14, eftir kosningarnar 2009. (sjá hér)

Nú er komin fram þingsályktunartillaga um að draga ESB umsóknina til baka. Hætta við ferlið án þess að leyfa þjóðinni kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu. En hverju var lofað fyrir kosningar í þeim efnum?  Í DV 23. febrúar 2013 (sjá hér) kemur skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn samþykktil á landsfundi að draga umsóknina til baka og sækja ekki aftur um nema eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla hefur gefið svar um vilja þjóðarinnar.  Samt sem áður var, samkvæmt DV, lofað í kosningabæklingi á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins að fólkið myndi kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort haldið yrði áfram ESB viðræðum (Sjá hér). Þennan bækling mun vera búið að fjarlægja af síðunni. Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar kemur skýrt fram hverju flokkurinn lofar. Þar stendur (sjá hér) „Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan - þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðargreiðslu á kjörtímabilinu.“

Hvað getum við sagt um þetta. Jú, Sjálfstæðisflokkurinn lofaði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar en var að öðru leyti skýr í sinni afstöðu um að slíta viðræðunum. Hér er að vísu kosningasvik og jú stefnubreyting miðað við það sem lofað var. Spurningin er af hverju er ekki hægt að standa við einfalda hluti. Hvað er það sem fær heilan flokk að breyta afstöðu sinni þegar búið er að ganga til kosninga og þingmenn eiga að framfylgja því sem þeir lofuðu að standa fyrir?

Niðurstaða mín er því sú, að þó svo að Sjálfstæðismenn hafi svikið það loforð sem gefinn var út fyrir kosningar þá sé það ekki eins alvarleg svik og þegar VG setti stafina sína við umsókn að ESB. Augljóst er að sjálfstæðismenn voru ekki á eitt sáttir um hvort halda ætti atkvæðagreiðslu um slit viðræðna eða hvort aðeins ætti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu við upphaf nýrra viðræðna.  

Trúlega er hvergi hægt að finna eitt lagaákvæði um það að ólöglegt  sé að beyta fólki blekkingum með innihaldslausum kosningaloforðum nema í lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 en þar má meðal annar finna í a. lið 117. gr.  að bera á mann fé eða fríðindi til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, að svipta mann eða ógna manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni, að heita á mann fé eða fríðindum ef kosning fari svo eða svo, að torvelda öðrum sókn á kjörfund eða til utankjörfundarkjörstaðar, svo og að beita þvingunarráðstöfunum í sambandi við kosningar“.

Þetta ákvæði tekur ekki á loforði eins og um það hvort það sé saknæmt að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu og svíkja það svo eða hvort lofað sé að sækja ekki um aðild að ESB en gera það samt.  Því er hægt að segja að hér erum við að tala um siðferði, heiðarleika og traust og hvort þingmenn standi undir því. Hingað til virðist það ekki hrjá nokkurn þeirra þingmanna sem sitja á Alþingi þó svo að maður eigi ekki að alhæfa. Ég minni þingmenn bara á að þeir eiga að fara eftir sinni eigin sannfæringu en í 48. gr. Stjórnarskrárinnar segir: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“  Þetta hlýtur því að eiga líka við það að þingmenn séu ekki bundnir við það sem þingflokkurinn ákveður ef það sé á móti sannfæringu tiltekins þingmanns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband