Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Virðum skoðanir annarra og lítum okkur nær.

Svona af því að umræðan á facebook og í samfélaginu er um ummæli einhverra kvenna í pólitíkinni, um breytta staðsetningu lóðar undir mosku sem var úthlutað, um orð Salmans Tamini um að honum finnist rétt að handhöggva þjófa og fleiri orð sem fallið hafa í hita leiksins. Hver og einn hefur rétt á sínum skoðunum og hver og einn hefur rétt að iðka sína trú en við þykjumst vera stolt af því að við séum þjóð sem virðir jafnrétti hér á landi. Mikið er talað um hvernig aðrir virði ekki konur, hvernig aðrir virði ekki börn og fram eftir götum og er það gott eitt að menn geri sér grein fyrir því að það eigi að virða rétt annarra en svo kemur það sorglega. Í skýrslu sem var unnin fyrir Félags- og tryggingamálaráðuneytið 2010 um ofbeldi í nánum samböndum, kemur fram að rúmlega 22% kvenna á aldrinum 18 – 80 ára hafa verið beittar ofbeldi einhvern tíma frá 16 ára aldri í nánu sambandi. Í meira en 70% þessara tilvika var áfengi með í för en samt virðum við rétt þeirra sem vilja drekka. Þetta er á Íslandi og meðal íslendinga. Erum við sem þjóð að virða rétt kvenna? Erum við þjóð sem viðrum rétt allra?

USA er með dauðarefsingu, en samt eru þeir oft kallaðir manna kristnastir. Við Evrópubúar höfum sett af stað 2 heimstyrjaldir og erum við þó kristnir. USA er alltaf í stríði. Hér á landi erum með kerfi þar sem einhverjir komust upp með setja heila þjóð á hausinn með þeim afleiðingum að fjöldi manns hefur gefist upp á lífinu, fjöldi manns flúði land, fjöldi manns leið illa og missti heimili sín. Nú er aðalhitamálið eitthvað sem er framandi, eitthvað sem hægt er að benda á og segja, þetta viljum við ekki, en gleymum að líta okkur nær og sjá hvað það er sem við gætum gert betur. Ég á tengdason sem á móðir sem kemur frá landi sem er eyja fyrir utan afríku, þar lifa öll trúarbrögð í sátt og samlyndi. Trúarbrögð er andlegur hlutur sem hefur ekkert að gera með það sem gerist í einræðisríkjum eins og flest þessi múslímalönd eru. Hér á Íslandi höfum við lög sem við reynum að lifa eftir og þau gilda um alla sem búa hér á landi og því auðvelt að stoppa eitthvað sem fer úr böndunum og hræðsluáróður er algengur þegar kosningar eiga í hlut en það er ótrúleg hvað fólk lætur ginnast.

Ég hef oft ákveðnar skoðanir á hlutunum og er örugglega með fullt af fordómum en ég reyni að læra á hverjum degi að við erum ekki yfir aðra hafin, allir eiga sinn rétt. Sumir dýrka náttúruna og vilja friða hana og blása svo út þegar kemur mynd af lambi sem tófan er búin að ráðast á. Þá heitir þetta dýrbítur og á að drepa allar tófur, en í hinu orðinu á náttúran að vera óskert. Við skiljum ekkert í því að verið sé að drepa öll villtu dýrin í Afríku og um leið og það kemur ísbjörn hér á land þá er hann drepinn. Hvalveiðar, við veiðum hvali af því að þeim fjölgar svo og éta allan fiskinn frá okkur segja sumir, en náttúran á að vera óskert segja þeir í hinu orðinu. Einhver hreytir út úr sér að rússneska rétttrúnaðarkirkjan sé bla bla bla af því að Rússland er að setja sig uppá á móti samkynhneigðum. Hvernig var máltækið.... að hengja bakara fyrir smið... Allir hafa rétt á skoðunum og öll eigum við að virða lög þessa lands og á meðan það er gert þá erum við í góðum málum.

Hvernig væri að við færum að skrifa um aðbúnað aldraðra, húsnæðisvandamálin, öryrkja, skólakerfið, börnin, lögregluna, ofbeldi, launajafnrétti innan opinbera geirans og almennt, bankana og aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka og fleira og fleira sem þarf að taka á. Hvernig væri að hætta að mála skrattann á vegginn yfir því sem er framandi og kynna sér hvernig sum þjóðfélög geta lifað í sátt og samlyndi með ólíkar trúarskoðanir. Hvernig væri að gefa öllum tækifæri á að koma sínum málum í viðunandi horf. Hvernig er með öryrkja, er ekki hluti af því að fólk þarf aðstoð til að komast í rétta vinnu þar sem það getur unnið við sitt hæfi, sumir geta unnið hluta úr degi við réttar aðstæður og myndi líða betur andlega að fá tækifæri að sjá sér farborða að hluta til. Atvinnulausir sem hafa misst kjarkinn að koma sér útá vinnumarkaðinn og vantar aðstoð til að komast af stað aftur. Eldri borgarar sem langar að komast á elliheimili þar sem er félagsskapur eða aðrir sem vantar smá aðstoð til að geta verið heima í sínu umhverfi. Virkjum sköpunargleðina og finnum lausnir á þeim vanda sem fyrir er en blásum ekki út mál sem eru okkur framandi og gætu verið eitthvað af því að það eru einhverjir í öðrum löndum sem hafa önnur lög, sem eru ekki okkur að skapi. Í tíð Hitlers voru sett lög í Þýskalandi sem hægt er að kalla ólög en þeir sem óhlýðnuðust þessum ólögum voru að fremja refsiverðan verknað samkvæmt þeirra lögum, þó þeir væru að gera það sem rétt þykir á flestra mælikvarða. Gerum betra þjóðfélag með aðgerðum sem eru til bóta fyrir alla sem þurfa á því að halda.  


Verkfall grunnskólakennara

Verkfall

Verkfall grunnskólakennara er ekki sama og verkfall framhaldsskólakennara. Þetta eru tveir aðskildir hópar og því ekki grunnskólakennurum að kenna þeir hafi verið jafn illa launaðir og ákveðið að fara í verkfall. Grunnskólakennarar eru búnir að bíða þolinmóðir í 2 ár eftir að nýjir samningar verði gerðir en þolinmæði þeirra á þrotum.

Hverjum er um að kenna?

Margir foreldrar fussa og sveia yfir því að þurfa að taka sér frí, taka af sumarfríinu, af því þau eiga barn sem getur ekki verið eitt heima og ekki hægt að taka barnið með í vinnuna og ég skil vanda þeirra vel. Allt þessum bölvuðum kennurum að kenna. En hvers vegna er skuldinni alltaf skellt á þann sem fer í verkfall? Af hverju stendur fólk ekki upp og segir „við viljum að sveitarfélögin greiði kennurum mannsæmandi laun"? Af hverju stendur fólk ekki upp og segir „nú eru að koma kosningar og við kjósum bara það lið sem vill mannbætandi stefnu"?

Hengja bakara fyrir smið

Af hverju er verið að nota fötluð börn sem refsivönd á kennara? Þeir eru svo slæmir að gefa ekki undanþágu, skrifar einhver kona og fleiri taka undir „vúúúúúú hvað kennarar eru slæmir og ómannúðlegir". Hvaða bull er þetta, er þetta ekki sveitarfélaginu að kenna? Er það ekki samfélagið sem leggur meiri áherslu á annað? Eiga kennarar að gefa einum hópi undanþágu þegar það er sveitarfélaginu að kenna að ekki er staðið betur við bakið á þeim sem eiga fötluð börn. Þetta er ekki eini hópurinn sem hefur það slæmt, það eru langveik börn, börn sem þjást af krabba eða öðru sem foreldrar hafa þurft að hætta vinnu til að geta séð um barnið og fá ekkert fyrir eða mjög lítið. Það eru ekki bara fötluð börn sem líða vegna verkfalls, það eru svo margar ástæður fyrir því að foreldrar þurfa að vera heima, t.d. því þau hafa engan að leita til um hjálp og jafnvel  langt komið með sumarfríið í veikindi barnsins. En hvað eiga þá kennarar að hætta við verkfall af því að samfélagið styður ekki við bakið á þeim sem þurfa á hjálp samfélagsins að halda?

Okkar val

Hvernig væri að hætta þessu væli alltaf hreint og taka lífinu eins og það er, ekki eins og við vildum að það væri. Hvernig væri að horfa framan í sjálfan sig og spyrja sjálfan sig, hvað ætla ég að kjósa í næstu sveitastjórnakosningum? Hvernig er stefna flokkanna og hver er mín reynsla af þeirri stefnu síðustu 4 árin? Í hvað hafa peningar sveitarfélagsins farið? Snýst rekstur sveitafélagsins um fjárfestingar og atvinnurekstur sem er ekki að borga sig? Eru sveitarfélögin að gambla með peninga og eyða í eitthvað sem hefur ekkert að gera með að vera í verkahring sveitarfélaga?

Hættum að láta eins og sveitastjórnarmenn séu eitthvað sem er óháð okkur sjálfum. Við erum sveitarfélagið, við ráðum hvernig við viljum hafa þetta. Hættum að hugsa um sveitarfélagið sem einhverja stofnun sem hefur sjálfstæðan vilja. Þjóðfélagið er eins og við gerum það og allir þeir sem sitja við stjórnvölinn eru manneskjur ekki vélmenni.

Flótti úr stéttinni

Grunnskólakennarar eru með skammarleg laun og ef við greiðum ekki laun sem hægt er að lifa af þá fara góðu kennararnir í eitthvað annað, skipta um starfsvettvang, flytja erlendis. Konan mín er kennari og hún sagði áðan, hvernig væri að fara til Svíþjóðar, þar fær maður helmingi hærri laun og getur verið stoltur af starfinu sínu. Henni var boðið rúmar 30.000 sænskar krónur fyrir leikskólakennarastarf í Stokkhólmi í fyrra.  Við hefðum geta greitt leigu, mat og rekstur fjöskyldunnar fyrir hennar laun og megnið af mínum launum til að greiða inná sparireikning eða ferðareikning eða til að greiða niður skuldir. Og þá segir einhver „ af hverju drullið þið ykkur ekki þá"? Hmmm, svara ég þá, og flýja af hólmi, vandamálið hverfur ekki fyrir það, ég er íslendingur og vill að kennarar geti verið stoltir af laununum, fyrir sitt starf og geti haft í sig og á.

Launin

Við vitum öll hversu mikilvægt það er að hafa góðan kennara, við höfum öll verið í skóla og eflaust lent á kennara sem var leiðinlegur og nennti varla að sinna starfinu sínu. Við endum með „grömpí" kennarastétt ef þau geta ekki lifað af laununum sínum eins og aðrar menntastéttir. Við erum að tala um 5 ára háskólanám. Jafn langt og lögfræðinám, lengra en viðskiptafræðinám, lengra en iðnmenntun en hvar liggja launin? Jú, ómenntaður starfsmaður í verslun telst ekki vel borgaður ef hann er með jafnhá laun og kennari svo einhvað sé nefnt.

Ég styð launakröfu kennara og tel að samfélagið hafi neytt þá útí þessar verkfallsaðgerðir og því er það okkar verk að þrýsta á sveitarstjórnarfólk að semja sem fyrst.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband