Erum við okkar eigin Guð, himnaríki og helvíti?

Hefur þú farið til útlanda? Myndi þig langa til að búa þar? Finndist þér að þér væri misboðið ef það yrði sagt við þig, við viljum ekki svona morðingja og ofbeldisfólk eins og þig sem ert kristinn eins og Krossfararnir forðum, sem ert kominn af víkingum sem rændu, rupluðu og drápu. Þú hlýtur að vera trúarofstækismanneskja og varhugaverð manneskja

Margir múslímar, sem koma frá löndum þar sem ríkir einræði og landinu stjórnað með harðri hendi og öfgatrú, flýja því þeim finnst þetta öfgar. Inn á milli kemur alltaf einn og einn sem sendur er af ráðamönnum þessara landa til að reyna að halda skikki á sínu fólki með því að hóta því og hræða til að vera öfgafólk. 


Við höfum því miður átt nokkra öfgamenn sem hafa farið hamförum um heiminn, við kölluðum þá útrásarvíkinga en þeir skildu eftir sig sviðna jörð þar sem þeir komu. Ekki viljum við vera kennd við þá þó svo að við séum að fagna komu þeirra aftur á sjónarsviðið, eða sumir allavega.

 
Hver er munurinn á því að vera múslími, kristinn eða útrásarvíkingur? Eru þetta ekki allt saman öfgar hjá vissu fólki sem skilur eftir sig eintóm sár? Fyrir mér er Guð það góða í manneskjunni, Guð er sálin okkar sem segir okkur að gera góða hluti, aðstoða þá sem hafa það slæmt, og láta gott af okkur leiða og horfa á manneskjuna sem einstaka persónu án þess að horfa á hvaða lit hún hefur eða hvað henni finnst. 


Það hefur enginn séð Guð eða Satan, himnaríki eða helvíti eða þá að við erum alltaf með það fyrir augum okkar en við bara viljum ekki þekkja það. Ég held að himnaríki sé að lifa í sátt við sjálfan sig, vera ánægður með eigin gjörðir og vera ánægður með hlutskipti sitt hér á jörð. Helvíti sé aftur á móti þegar við fæðumst hér á jörð en erum ekki ánægð með hlutskipti okkar, erum alltaf að berjast við eitthvað sem kvelur okkur perónulega, eða við fæðumst í löndum eins og Ísrael, á svæði eins og Gaza eða þar sem við getum ekki um frjálst höfuð strokið sem er því miður of víða. 

Minn skilningur á Öllum trúarritum eins og Biblíunni, Kóraninu og fleiri ritum, er að þau eigi að kenna okkur nákvæmlega þetta.
Við erum bara svo dugleg að mistúlka allt og gera allt að öfgum en það er samt til fullt af fólki sem trúir því að með kærleik getir þú læknað það illa og með því að breyta sjálfur eins og þú vilt að aðrir breyti gagnvart þér, sértu að breyða út kærleikann. Hættum að tönglast á því hvort það heiti eitthvað sérstakt, hvort það heiti trú, hvort það heiti kærleikur, hvort það heiti Guð eða Satan, því þetta snýst um okkur sjálf. Ef lífið okkar geislar af innri frið, ef lífið okkar er svo aðdáunarvert að öðrum langar að verða eins og við, þá þurfum við ekki að óttast að aðrir vilji eyðileggja það. 


Við getum verið sammála um það að ef við trúum á kærleikann þá eru líkur á því að við uppgötvum himnaríki á jörð, því af hverju ættum við að öðlast himnaríki einhverntíma seinna? Af hverju ætti helvíti að verða seinna? Við erum að lifa þessu lífi núna og í næsta, ef það er til, þá tökumst við á við þann heim. Nú þurfum við að takast á við þennan og ég ætla að velja himnaríki á jörð enda stefnt að því í 53 ár að finna það innra með mér og þó að leiðin hafi oft á tíðum verið hreint helvíti þá veit ég að ég hef fundið mitt himnaríki. 


Að lokum, hugsaðu dæmið til enda, í Biblíunni stendur, Guð skapaði manninn í sinni mynd. Þar sem við vitum að það voru menn sem skrifuðu þessar trúarbækur, þá er ekki hægt að rökræða sig fram hjá því að Guð skapar hvern og einn í sinni mynd þ.e. sem Guð. Ef við trúum ekki á Guð og finnst það vera bull, þá hljótum við að vera á sama máta ábyrg fyrir gjörðum okkar og okkar eign himnaríki. Sálin, heilinn, tlfinningarnar, hvað sem þú kallar það, er til staðar, hvort sem þú trúir eða ekki og eru með eiginleikann gott og illt. Ef þú ert nokkurnveginn eðlilegur og nokkurnveginn heilbrigð manneskja, líður þér alltaf betur þegar það góða hefur yfirhöndina, þ.e. þér líður betur að rétta náunganum hjálparhönd heldur en að gera honum illt. Verum því raunsæ og okkur sjálfum trú, hættum að hunsa okkar eðli og gerum þjóðfélagið og heiminn að himnaríki á jörð.   


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband