Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Tabú

Ligg andvaka og hugsa um gildi laga og þann feril sem þau fara áður en þau eru sett. Að mörgu er að hyggja en við nánari skoðun vitum við að lögin eru samin af fólki og fólk hefur misjafna skoðun á hverju máli, misjafna reynslu, misjafnar væntingar. Þjóðfélagið breytist og það sem á við í dag er kannski úrelt á morgun. Ég er loksins farinn að skilja að til að verða góður lögfræðingur verður maður að lesa óhemju mikið til að skilja af hverju við höfum þetta svona en ekki hinsegin eða á annan veginn en ekki hinn. Málið er samt ekki svo einfalt í mörgum tilvikum. Það er einfaldlega ekki nægilegt að vita af hverju, því hvað gerum við þegar við sjáum að þetta gengur ekki og lögin eru í raun samin af hugsjónarfólki sem hefur lagt sig fram til að skilja viss málefni út í gegn. Þau fylgja oft því munstri sem skapast hefur á hinum norðurlöndunum og reynt að aðlaga að íslenskum aðstæðum eða að okkar fámenni í vissum tilvikum, það er bara einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir öllum hugsanlegum aðstæðum. Ennþá erum við í grunninn gott fólk og hjálpum hvort öðru þegar á reynir en það sem ég er að tala um að sé ekki nægilegt að skilja bara af hverju, eru mál sem eru tabú í þjóðfélaginu.

Ofbeldi er tabú í þjóðfélaginu. Við þegjum þunnu hljóði yfir því að við heyrðum að í næsta húsi var karlinn eitthvað að tuska konuna, börnin fóru að gráta, brothljóð, öskur, dynkir, eitthvað sem veldur því að við erum nokkuð viss að um ofbeldi er að ræða en þetta er Gunni í næsta húsi, hann sem er svo skemmtilegur og hann myndi ekki gera flugu mein, hann elskar konuna sína og ekki honum að kenna að hún virðist vera orðin svo fáskipt, talar varla við kjaft og heldur sig mest inni bara. Ekkert skrítið að hann fái nóg annað slagið. Krakkarnir verða bara smá hrædd en hann myndi aldrei leggja hendur á þau eða konuna.

Svona er þetta, konan kúguð og veit að ef hún skilur við hann verður hann brjálaður svo hún ákveður að harka út í einhver ár þangað til að börnin verða eldri, hann var nú svo blíður eftir að hann barði hana síðast og gaf henni nýja saumavél, og þar á undan nýja tölvu og þar á undan keyptu þau 50 tommu flatskjáinn sem þeim hafði alltaf langað svo í en Gunni ekki viljað kaupa.

Einn daginn fékk konan nóg og þegar hann hafði blindfullur barið hana eins og harðfisk af því að hún fékk meira útborgað en hann og honum fannst hún vera að ögra sér með því að vera að státa sig af upphæðinni. Hún gat ekki meir, hún hreinlega „snappaði", hann gerði aldrei neitt á heimilinu, hún vann 2 tímum lengur en hann til að fá svipuð laun útborgað, hún kom heim dauðþreytt og þá var hann oft fullur, heimtaði mat, heimtaði föt, heimtaði kynlíf, heimtaði og krafðist og þegar hún í einfeldni sinni var ánægð með sig þá fékk hún að finna fyrir því. Hún væri ekki betri en nokkur drusla, og ætti að halda sig á mottunni og bla bla bla. Hún „snappaði" og tók í bræði sinni styttuna sem var á stofuborðinu sem hún datt á og braut, styttan brotnaði ekki, bara borðið og eflaust einhver rifbein í henni. Hún tók styttuna og barði hann í höfuðið og hann höfuðkúpubrotnaði. Hún hringdi á sjúkrabíl, löggan kom og hún var dæmd.

Hún hafði aldrei kært hann, hún hafði aldrei sagt annað en að hún hefði dottið eða hestur sparkað í sig einu sinni þegar hann kýldi hana svo fast. Hún skammaðist sín að segja öðrum frá því að hún væri beitt ofbeldi. Sönnunargögnin lágu fyrir, styttan, játning hennar, og hann kærði hana auðvitað auk þess að þegar um svo alvarlegt mál er að ræða þá grípur ríkið inní.                                                                          

Hún þarf að sitja inni. Hún missir forsjá barnanna, því hann þarf að hefna sín á henni og þó honum þyki vænt um börnin að einhverju leiti þá er það meiri friðþæging að taka börnin frá henni heldur en að hugsa um hag barnanna.  Þó þau grátbiðji um að vera hjá mömmu en ekki hjá pabba sínum þá er bara litið á þetta sem geðshræringu útaf af öllu sem gerðist. Nágrannarnir segja við eftirgrennslan yfirvalda að hann skvetti stundum í sig og sé smá skapstyggur en þvílíkan öðling sé varla að finna. Hún hafi aftur á móti verið svo þung orðin og haldið sig innandyra. (sem er ef lesandi skilur það ekki, dæmigert fyrir konur sem eru beittar ofbeldi, auk þess að börnin losna aldrei við þær afleiðingar sem ofbeldi hefur haft á þau)


Hvernig er hægt að koma í veg fyrir slíkt óréttlæti, kúgun, ofbeldi, niðurlægingu eða hvaða ofbeldi sem er beitt, leiði til þess að sá sem er fórnarlambið verði talinn sökudólgur? Sem betur fer er þetta dæmi mitt undantekning en samt að hluta til úr sænskum dóm, en bara að hluta til. Hitt er skáldað upp úr þeim aragrúa af dómum sem ég er búinn að lesa.
Hvernig getum við komið í veg fyrir slíkt? Jú með því að tilkynna í hvert sinn sem við verðum vör við ofbeldi, í hvert sinn sem okkur grunar að um ofbeldi sé að ræða, og alltaf alltaf þegar við vitum að börn eru á heimilinu. Stundum sjá menn að sér ef tekið er á málunum strax og leita sér hjálpar. Rannsóknir sýna að ofbeldi erfist, drengir sem sjá föður sinn berja móður sína, eru líklegri en hinir að berja sínar konur þegar þeir eldast. Dæturnar eru líklegri til að verða kúgaðar og þola yfirgang. Stoppum ofbeldi með kærleik. Ekki bíða þar til að einhver annar gerir hlutina sem þér ber alveg eins skilda til að gera. Við vitum hvað lögin segja og í svona tilfelli þurfum við ekki að hugsa útí það heldur hvað segir samviskan okkur? Er eðlilegt að horfa uppá ofbeldi og aðhafast ekki neitt? Þjófélagið breytis og mennirnir með svo tökum okkur til og verðum leiðinleg og hringjum á lögguna þegar við sjáum eða verðum vör við ofbeldi. Aðstoðum konuna, börnin, sýnum þeim kærleika, ást og umburðarlyndi því þó þau hati þig fyrir að þú skiptir þér af og þú veður drullusokkur, afskiptasemin uppmáluð, þú verður sá sem gerðir rangt að þeim finnst. Þú veist betur, þú veist að sá tími kemur að þau þakka þér. Bjargaðu lífi þeirra sem þurfa að þola ofbeldi, ekki bara treysta á að lögin dæmi þann sem hefur gert rangt. Lögin bæta ekki sálarlíf barnanna. Lögin eru ekki bara til að refsa heldur til að varna því að ofbeldi sé framkvæmt. Lögin leggja þá skildu á hendur þér að sjáir þú manneskju í hættu og þú getur forðað því að hún láti lífið eða slasist þá ber þér að koma henni til aðstoðar og það getur þú gert með því að hringja á lögregluna. Refsing er fyrir eitthvað sem er gert í trássi við lög og reglur, en við getum oft stoppað það áður en það fer svo langt. Lífið er oftast best þegar við getum lifað því í sátt við lög og menn og í sátt við okkur sjálf.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband