Verkfall grunnskólakennara

Verkfall

Verkfall grunnskólakennara er ekki sama og verkfall framhaldsskólakennara. Þetta eru tveir aðskildir hópar og því ekki grunnskólakennurum að kenna þeir hafi verið jafn illa launaðir og ákveðið að fara í verkfall. Grunnskólakennarar eru búnir að bíða þolinmóðir í 2 ár eftir að nýjir samningar verði gerðir en þolinmæði þeirra á þrotum.

Hverjum er um að kenna?

Margir foreldrar fussa og sveia yfir því að þurfa að taka sér frí, taka af sumarfríinu, af því þau eiga barn sem getur ekki verið eitt heima og ekki hægt að taka barnið með í vinnuna og ég skil vanda þeirra vel. Allt þessum bölvuðum kennurum að kenna. En hvers vegna er skuldinni alltaf skellt á þann sem fer í verkfall? Af hverju stendur fólk ekki upp og segir „við viljum að sveitarfélögin greiði kennurum mannsæmandi laun"? Af hverju stendur fólk ekki upp og segir „nú eru að koma kosningar og við kjósum bara það lið sem vill mannbætandi stefnu"?

Hengja bakara fyrir smið

Af hverju er verið að nota fötluð börn sem refsivönd á kennara? Þeir eru svo slæmir að gefa ekki undanþágu, skrifar einhver kona og fleiri taka undir „vúúúúúú hvað kennarar eru slæmir og ómannúðlegir". Hvaða bull er þetta, er þetta ekki sveitarfélaginu að kenna? Er það ekki samfélagið sem leggur meiri áherslu á annað? Eiga kennarar að gefa einum hópi undanþágu þegar það er sveitarfélaginu að kenna að ekki er staðið betur við bakið á þeim sem eiga fötluð börn. Þetta er ekki eini hópurinn sem hefur það slæmt, það eru langveik börn, börn sem þjást af krabba eða öðru sem foreldrar hafa þurft að hætta vinnu til að geta séð um barnið og fá ekkert fyrir eða mjög lítið. Það eru ekki bara fötluð börn sem líða vegna verkfalls, það eru svo margar ástæður fyrir því að foreldrar þurfa að vera heima, t.d. því þau hafa engan að leita til um hjálp og jafnvel  langt komið með sumarfríið í veikindi barnsins. En hvað eiga þá kennarar að hætta við verkfall af því að samfélagið styður ekki við bakið á þeim sem þurfa á hjálp samfélagsins að halda?

Okkar val

Hvernig væri að hætta þessu væli alltaf hreint og taka lífinu eins og það er, ekki eins og við vildum að það væri. Hvernig væri að horfa framan í sjálfan sig og spyrja sjálfan sig, hvað ætla ég að kjósa í næstu sveitastjórnakosningum? Hvernig er stefna flokkanna og hver er mín reynsla af þeirri stefnu síðustu 4 árin? Í hvað hafa peningar sveitarfélagsins farið? Snýst rekstur sveitafélagsins um fjárfestingar og atvinnurekstur sem er ekki að borga sig? Eru sveitarfélögin að gambla með peninga og eyða í eitthvað sem hefur ekkert að gera með að vera í verkahring sveitarfélaga?

Hættum að láta eins og sveitastjórnarmenn séu eitthvað sem er óháð okkur sjálfum. Við erum sveitarfélagið, við ráðum hvernig við viljum hafa þetta. Hættum að hugsa um sveitarfélagið sem einhverja stofnun sem hefur sjálfstæðan vilja. Þjóðfélagið er eins og við gerum það og allir þeir sem sitja við stjórnvölinn eru manneskjur ekki vélmenni.

Flótti úr stéttinni

Grunnskólakennarar eru með skammarleg laun og ef við greiðum ekki laun sem hægt er að lifa af þá fara góðu kennararnir í eitthvað annað, skipta um starfsvettvang, flytja erlendis. Konan mín er kennari og hún sagði áðan, hvernig væri að fara til Svíþjóðar, þar fær maður helmingi hærri laun og getur verið stoltur af starfinu sínu. Henni var boðið rúmar 30.000 sænskar krónur fyrir leikskólakennarastarf í Stokkhólmi í fyrra.  Við hefðum geta greitt leigu, mat og rekstur fjöskyldunnar fyrir hennar laun og megnið af mínum launum til að greiða inná sparireikning eða ferðareikning eða til að greiða niður skuldir. Og þá segir einhver „ af hverju drullið þið ykkur ekki þá"? Hmmm, svara ég þá, og flýja af hólmi, vandamálið hverfur ekki fyrir það, ég er íslendingur og vill að kennarar geti verið stoltir af laununum, fyrir sitt starf og geti haft í sig og á.

Launin

Við vitum öll hversu mikilvægt það er að hafa góðan kennara, við höfum öll verið í skóla og eflaust lent á kennara sem var leiðinlegur og nennti varla að sinna starfinu sínu. Við endum með „grömpí" kennarastétt ef þau geta ekki lifað af laununum sínum eins og aðrar menntastéttir. Við erum að tala um 5 ára háskólanám. Jafn langt og lögfræðinám, lengra en viðskiptafræðinám, lengra en iðnmenntun en hvar liggja launin? Jú, ómenntaður starfsmaður í verslun telst ekki vel borgaður ef hann er með jafnhá laun og kennari svo einhvað sé nefnt.

Ég styð launakröfu kennara og tel að samfélagið hafi neytt þá útí þessar verkfallsaðgerðir og því er það okkar verk að þrýsta á sveitarstjórnarfólk að semja sem fyrst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband