Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Áhyggjur bloggheima af ferðamennsku

Var að koma úr smá ferðalagi til Gautaborgar og var víða um borgina og sá allskonar verð hér og þar. Mér datt þá í hug spekingar bloggheima sem velta sér uppúr verðum íslenskrar ferðamennsku. Þegar maður gengur einhverja verslunargötu, fer á milli veitingastaða þá sér maður há verð, tilboð, hlægilega ódýr verð, okur, brjálæði, skynsemi og útsölur. Allskonar verð fyrir allskonar fólk. Ekki dettur manni í hug að áfellast einn eða neinn við svona verðlagningu. Allir hafa sínar ástæður að verðlagningunni, og ég tel mig fullkomlega færan um að segja nei takk við þessu dýra sem ég hef ekki minnsta áhuga á að kaupa og veit að með sömu verðlagningu dettur sá út af markaðinum von bráðar.

Markaðurinn á einmitt eftir að ráða verðlagningunni. Menn prófa sig upp og niður eftir verðlistanum þangað til að þeir uppgötva hvert sé rétta verðið. Við megum ekki gleyma að mikið af þessu fólki sem er farið í bransann er gjörsamlega óvant og telur að varan sé svo frábær að það muni allir kaupa og á miklu hærra verði, en svo kemst það að raun um að staðreyndin er önnur.

Ég áfellist ekki Gautaborg fyrir há verð, ég áfellist ekki Svíþjóð, ég hlæ bara að bjartsýni þeirra sem setja verðið of hátt. Munum að ferðamenn hafa gaman að því að sjá fjölbreytileika og fáráðnleg verð en buddan þeirra enda oft í Bónus því fólk er skynsamt þegar kemur að eyðslu á ferðalögum og ansi einhæft framboð gerir það að verkum að lítill áhugi er á að fjárfesta.

Verðum þolinmóð og þakklát fyrir að einhver tekur á móti ferðafólkinu og við getum hjálpað til með að benda á hversu áhugavert er að skoða landið. Fólk tjaldar ef verðin eru of há svo verum ekki að spá í buddu ferðamannanna.  


Örorkubætur sem hluti af útgjöldum ríkisins, af hverju hafa svona margir orðið öryrkjar?

Örorka er ekkert gamanmál og sá sem er öryrki á alla mína samúð. Hvað er verið að gera vitlaust í þjóðfélaginu sem gerir það að verkum að bótaþegum bara fjölgar? Það sem mig langar einnig að vita er hvers vegna eru framlög ríkisins til örorkugreiðslna svona háar?

Samkvæmt fjárlögum 2014 bls. 94 er hægt að sjá útgjöld ríkisins til öryrkja. Samtals eru þetta greiðslur uppá rúma 28,3 milljarða. Það sem mig myndi langa að vita hvers vegna þessi upphæð er svona há? Af hverju er þessi liður alltaf að hækka en sem hlutfall af heildartekjum ríkissjóðs(rekstrargrunnur) var þetta rúm 4.6%.

Árið 2013 var þessi upphæð rúmir 26.3 milljarðar og sem hluti af heildartekjum 4,55%.

Árið 2012 var þetta 25 milljarðar eða 4,78%

Árið 2000 var þessi upphæð  rúmir 4.5 milljarðar. Þetta var 2,27% sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs(rekstrargrunnur) sem er að ég held ágætis viðmiðun þar sem ég hef ekki umreiknað upphæðirnar í núvirði. 

Mín hugsun er hvort ekki sé hægt að lækka þessa tölu um allavega helming með því að gefa þessu fólki kost á að endurmennta sig, vinna hluta úr degi, vinna létt störf, endurhæfing, eða annað sem mér dettur ekki í hug í augnablikinu. Ástæða þess að fólk er með örorku er margvísleg og sumir ekki í standi að vinna, en aðrir myndu með glöðu geði vinna hluta úr degi eða fá aðstoð að læra eitthvað annað sem gerir þeim kleyft að verða fær um að sjá fyrir sér og þannig styrkja sjálfstraust sitt.

Það má ekki misskilja þetta viljandi, allir sem eru á örorku eru á henni því þau eru ekki fær um að vinna en mín spurning er hvort ekki sé hægt að aðstoða þetta fólk að breyta til, bæta lífskjör sín á einhvern hátt því það verður enginn ríkur á að vera á örorkubótum nema síður sé. Við vitum að þær eru ekki nema rétt til að lifa af en samt er þetta ótrúlega há upphæð þegar á heildina er litið.  

Eins mætti taka dæmi um atvinnuleysisbætur. Er ekki hægt á einhvern hátt hægt að koma því fólki til bjargar, greiða með þeim svo þau geti verið á vinnustað og haldið sér i þjálfun og andlegu jafnvægi því það er löngum vitað að ekkert er verra en að vera atvinnulaus langan tíma.

Verum hugsandi og hugsum málið til enda ekki bara henda í fólk bætur og láta fjöldann hrannast upp sem situr heima á sultarlaunum og líður bara verr fyrir vikið.  


Okkur vantar málefni til að gleðjast yfir og fyllast þjóðarstolti.

Þegar vel gekk og allt lék í lyndi þá vorum við ansi stolt af því að búa á litla Íslandi með stóru peningakarlana, með einkaflugvélar, þyrlur, fótboltastjörnur og allt virtist leika í höndunum á okkur, við skulduðum helling sjálf í húsnæði og stýrivextir háir, en við gátum borgað af lánunum, keypt bíl og haft það bara þokkalegt. 

Hrunið 

Svo kom hrunið og við lifðum smá tíma í voninni um að þetta yrði bara stutt, fjármálasnillingarnir okkar væru svo klárir að þeir myndu finna leið útúr þessu, rétta þetta af og púff allt farið. En það gerðist ekki, það bara versnaði og reiðin magnaðist og allt breyttist í helvítins útrásarvíkingarnir og ekki var það ég sem tók þátt í þessu og ég vissi alltaf að þetta tæki enda og allir héldu endalaust áfram að tjá sig. Reiðin og gremja þeirra sem höfðu ekki tekið eftir því að lánin höfðu hækkað og jafnvel tekið auka lán til að henda öllu út úr húsnu og setja allt nýtt inn og til að kaupa fullt af hlutabréfum.

Handboltinn

Við fengum að fagna silfri á Ól 2008 og öll þjóðin tók þátt í að styðja þá, samhugurinn var mikill, við höfðum eitthvað gleðjast yfir en þá var kreppan ekki komin. Á EM 2010 lentum við í 3. sæti og svo vorum við nr. 5 á Ól 2012. Þetta var frábær árangur og varð til þess að við gátum fengið eitthvað sameiginlegt að gleðjast yfir. Eitthvað sem við gátum verið stolt af. 

Hverju öðru erum við stolt af?  

Ég veit það hreint ekki en að við erum stolt af landinu okkar, náttúruperlum þessa lands, Eyjafjallajökli sem setti okkur á kortið og hrellti Bretana aðeins en þeir áttu það inni. Öllum kvikmyndunum sem eru gerðar hér. Svo er það eitt og annað sem gerir okkur stolt annað slagið.

En 

Svo er það þetta nýjasta, græðgin er að taka yfirhöndina í ferðamannabransanum. Maður fær stundum kjánahroll yfir háu verðunum, yfir græðginni að nú skuli allir borga fyrir að skoða Geysir, eða öllur heldur Strokk og ýmis önnur svæði sem hægt er að taka gjald fyrir. Svo nú eru náttúruperlunar peningavél fyrir nokkra einstaklinga.

Gleðiefni

Okkur vantar gleðiefni, okkur vantar eitthvað til að vera stolt yfir, eitthvað sem gerir okkur stolt og við getum sagt, þetta eru mínir landsmenn, mín þjóð og ég er svo stoltur af henni. Það er einmitt það sem við höfum, við höfum hitaveituna okkar, við höfum jöklana okkar, við höfum allar náttúruperlurnar og útlendingunum finnst það bara allt í lagi að það sé rukkað. Þeir hafa val. Við höfum það betra en flestir þó við höfum það ekki eins gott og fyrir hrun. Við lifum og við leikum en við megum ekki láta allt snúast um það sem við höfum ekki. Njótum þess sem við höfum og stefnum á það að hafa það enn betra, svo tökum höndum saman og gerum þetta að betra landi. Hættum að draga allt niður í svaðið, það eru ekki allir slæmir. Verum stolt af landinu okkar og seljum túristunum afnot af því gegn hæfilegu gjaldi með hæfilegum gróða. Ef við erum stolt þá verða ferðamennirnir stoltir að hafa fengið að upplifa þetta náttúruundur.  

 

 

 


Nú spyr ég ykkur öll sem skrifið hér, hvern viljið þið sem Seðlabankastjóra

Eg ætla ekki að hafa þetta langt, heldur spyrja, hvern viljið þið fá sem Seðlabankastjóra og hverjum treystið þið í það verk. Er það núverandi bankastjóri eða einhver annar? Væri gaman að heyra hvern þið viljið og af hverju?

Er ekki aðal vandamál þjóðarinnar of lítill útflutningur?

Hvað er það sem er alltaf að hrella okkur hér á landi? Jú, það eru of háir stýrivextir en ástæða of hárra stýrivaxta er annaðhvort af því að það er þensla, verðbólga eða af því að okkur vantar gjaldeyrir. Háir stýrivextir lokka fjárfesta hingað með gjaldeyrinn sinn og við getum verslað erlendis eða greitt skuldirnar okkar. 

Er þá ekki nr. 1 að fjölga útflutningsgreinum og sjá til þess að við séum að fá inn meiri gjaldeyri en við erum að eyða?

Af hverju er það þá ekki gert, af hverju stuðlum við ekki að því með öllum tiltækum ráðum? Jú, það er til svar við því líka. Sjávarútvegurinn  og reyndar aðrar útflutningsgreinar hafa það mun betra með lágt gengi og því gott fyrir þá að hafa þetta svona eins og það hefur verið. En nú er þetta bara orðið gott að heil þjóð láti útflutningsgreinarnar ráða för því það er ekki hægt  búa við það að einhverjir nokkrir hagnist á meðan þjóðin borgar það niður. 

Hér keppast stjórnarflokkarnir að gera grín að ESB og þeirra stjórnarháttum en hvort ætli íbúar ESB eða við höfum það fjárhagslega betra? Jú ESB svo skrítið að gera grín að þeim.  Er ekki jafnvægi í útflutningi og innflutningi betra en að lifa stöðugt við þetta óöryggi. 


Seðlabankinn afsláttur á krónum og háir vextir að auki og í leyfi hvers???

Renndi aftur yfir það sem ég skrifaði um afslátt á krónum um daginn og flétti uppá heimasiðu Seðlabankans og komst þá að því að ég haðfi verið heldur hógvær í afláttunum með því að segja að við værum að selja krónuna á 80 aura. Í sumum tilfellum, er það mun meiri afsláttur sem hefur veirð gefinn en reikna það síðar nákvæmlega. Spurningin er hver getur með leyfi stjórnvalda, sett kronuna okkar á útsölu? Hver er svona valdamikill að gefa þá eign sem við landsmenn eigum???????? Ég hef aldrei verið spurður um þetta né nokkur landsmaður. 

Samkvæmt öllum venjum þá hækkar maður stýrivexti til að lokka að fjármagn og það höfum við verið að gera á kostnað landsmanna. En að halda síðan krónuuppboð og selja krónuna með afslætti svo um munar er eitthvað sem við eigum eftir að súpa seyðið af síðar þegar kemur að því að flytja þetta fé út aftur. Talandi um að búa til snjóhengju.

Kemur nánari útlistun og tilvísanir í öðrum pistli en þetta nær ekki nokkurri átt lengur.  


Fari brennivínið í búðirnar er grundvöllur fyrir kaupmanninn á horninu

Allt færri kaupmenn á horninu eru eftir hringinn í kringum landið en núna þegar leggja á fram frumvarp um sölu áfengis í búðum landsins og lögreglumaðurinn sjálfur er staðfastur á því að það muni ekki hafa slæm áhrif á drykkju landsmanna né auka drykkju hjá ungu fólki, þá er aftur kominn grundvöllur fyrir því að kaupmaðurinn á horninu geti staðist samkeppni stórmarkaðanna. Velta verslana mun aukast til muna og því hægt að hafa minni álagningu á öðrum vörum og ná jafnvel samkeppnishæfni við hina stóru. 

Svo kannski erum við að fara að tala um kjötborð og kryddaðar steikur í hverfisbúðum. Þá er kannski kominn grunvöllur fyrir verslunum í litlum bæjarfélögum eins og Stokkseyri og Eyrarbakka. 

Maður verður að líta jákvæðum augum á það sem þeir sem þekkja til segja að sé miklu betra. Við skulum samt muna nafnið hans Viljhjálms Árnasonar og hrósa honum ef þetta fer vel eða ef þetta fer illa og þá væri nú í lagi að maðurinn fengi að svara fyrir fullvissu sína. Vonandi hefur hann rétt fyrir sér að þetta verði allra meina bót.

 


Gefum fjárfestum tækifæri á að fjárfesta í ferðamannaþjónustu í stað þess að búa til bólu á fasteignamarkaði og fyrirtækjamarkaði eins og fyrir hrun.

Um allar sveitir er sveitafólk að breyta búum sínum í gististaði fyrir ferðamenn, menn fjárfesta og setja sig í skuldir til a ná í bita af kökunni. Ég hef búið í nær 4 ár í Borgarbyggð, verði hér í Háskólanum á Bifröst, farið í framboð, rekið tjaldstæðið í Varmalandi sem verktaki milliliða úr Reykjavík en ég hef einnig verið túristi hér um nágrennið.

Mig klæjar í puttana að bæta aðstöðuna, gera allt þetta litla sem þarf til að gera þetta að spennandi kost fyrir ferðamenn.  Hér í Borgarbyggð fer fólk að skoða Barnafossa, gengur tröppur upp að Grábrók, borðar mat í bensínsjoppum í Borgarnesi og fer að Deildatunguhver sem er gaman að sjá en hvað svo? Jú, má ekki gleyma Snorralaug, í Reykholti.

Við hjónaleysin þurftum mjög oft að benda fólki á hvað væri hægt að skoða þegar við vorum með tjaldstæðið en einhvernveginn var eins og fólk finndi ekkert merkilegt að skoða eða gera.

Borgarnes stendur við sjó en þar hefur sandurinn fyllt upp hafnarsvæðið vegna Borgarfjarðarbrúnnar sem breytti öllu. Það er ekki bara sandburður í Landeyjahöfn, það er í Borgarneshöfn líka. Þar lögðust skip að bryggju hér áður fyrr, Akraborgin kom þangað en nú er öldin önnur.

Mig langar að sjá þar smábátabryggju sem gengur út frá Geirabakarí, þar sem hægt er að koma að á bátum og fá sér kaffi, þar sem hægt er að sitja og horfa á bryggjuna og bátamenninguna, en í dag er lítil smábátabryggja út á eyjunni sem þarf að klifra niður að, frá gömlu bryggjunni og ekki beint aðlaðandi fyrr eldra fólk.

Ég er með í kollinum frábæra tillögu að ferðamannastoppustað þar sem yrði haft samstarf við ólíka aðila og þannig gera ferðamannaþjónustuna að alvöruvinnu allt árið þó megnið yrði um sumartímann. Ég hef stað í huga sem þarf að flikka uppá og byggja viðbót og yrði að leggja í hann einhverjar milljónir svona í byrjun og væri þetta fjárfesting uppá einhverjar hundruði milljóna en samkvæmt mínum útreikningum fljótt að borga sig. Fjöldinn er til staðar en það þarf bara að sýna framá að það er hægt að gera hluti sem eru spennandi. Hluti sem eru örðuvísi og hluti sem eru Ísland og fær fólk að langa að koma, langa að stoppa, gista á stöðum í nágrenninu og þannig nýta gistirými.

Við erum ekkert að fá fólk að stoppa og eyða pening ef við erum ekki að gera okkur aðlaðandi kost, fastan kost sem hægt er að taka á móti mörgum rútum í einu og bjóða uppá annað en bensínsstöðvarmat. Hvað er meira spennandi en að geta sest niður með kaffibollan sinn og hafa eitthvað fallegt að horfa á, eitthvað sem við erum ekki alltaf með fyrir augunum og ró og frið.

Hugsum út fyrir rammann og þar sem nú eru gjaldeyrishöft ætti ekki að vera vandræði að  fá fjárfesta til að setja fé í íslenska ferðaþjónustu. Lífeyrissjóðirnir bíða væntanlega í röðum eftir því að fá að kaupa sér hlut í hugmyndinni minni eða ykkar eða er leikurinn núna meðal félaganna í fjárfestingarsjóðunum að kaupa fyrirtækin af hvor öðrum og mynda bólu, kaupa fasteignir á víxl og mynda bólu? Litur vel út á blaði. Lítur vel út fyrir þá sem eru búnir að gleyma af hverju varð hrun.

Útbúum fjárfestum greiða leið að verkefnum sem borga sig upp með því að dæla í þá hugmyndum að spennandi verkefnum, það er ekki bara fjárfesting að fjárfesta erlendis, það er svo margt sem bíður okkar að gera hér á landi og sem vantar fjármagn.

Þar sem ég bíð spenntur þá sendið fundarboðin á brynjolfur.tomasson@gmail.com eða hringið í síma 847 8001 og tökum höndum saman, snúum okkur að því að gera þetta að landi skemmtilegra ævintýra, landi sem fólk getur komið og gert hluti án þess að tapa allri hýrunni á einu bretti. Setjumst niður og gefum fjárfestum tækifæri á að ávaxta fé sitt og gefum ferðafólkinu möguleika á að setja fé sitt í skemmtilega og aðlaðandi hluti og gefum íslenskum ferðamönnum möguleika á að hafa gaman af að ferðast um landið sitt. 


Þetta er átakanlegasta grein sem ég hef lesið lengi.

Grein sem birtist í DV 11. júlí sem ber nafni "Ekkert nema hreiður vitfirringar" (sjá hér). Þetta er einhvert þarfasta umræðuefni sem tekið hefur verið upp lengi. Þvílíkar myndir og snilld þess sem tók þessar myndir og hvernig honum tekst að lýsa ástandinu. Ég er nú ekki harðari af mér en það að ég fékk verk fyrir hjartað að sjá þetta en það er ekki það sem skiptir máli. Hvernig er hægt að hjálpa þessu fólki sem hefur orðið fíkninni að bráð og kemst ekki út úr því.

Ég get oft á tíðum ekki skilið hvernig fólk í kommentakerfnu getur alltaf verið svo harðbrjósta, "sjálfskaparvíti", "hvernig getur fólk gengið svona um" og mörg önnur komment, en ég hélt að fólk skildi að þegar þú ert svona langt gengin í fíkninni þá hefur þú kannski ekki mikinn áhuga á að vera að punta kringum þig. Kannski ekki einu sinni rétt því ég veit ekki hvernig fólki er leyft að fara svona langt.

Af hverju er fólk ekki svipt sjálfræði og lagt inn á sjúkrastofnun? Eða er það brot á friðhelgi fólks? Held ekki því þér ber skylda til að bjarga fólki sem þú veist að annars gæti orðið illa úti. Það er meira að segja refsivert að aðhafast ekkert ef þú gætir bjargað því án þess þó að stofna sjálfum þér í lífshættu. Kannski ekki átt við svona aðstæður en því ekki? 

Við látum oft eins og við séum svo mörg hér á þessu landi og við náum ekki að hugsa um alla sem hafa það slæmt. Ég skil vel að sá sem er í ruglinu telji að hann eða hún séu að gera það eina rétta, lifa lífinu en svo gæti ég trúað því að þegar bráir að á milli þá sé þetta ekki svo spennandi. Fólk fer á Vog, fer á geðdeild eða hvert það nú fer til að ná upp styrk á ný.

Fólk á rétt að halda sjálfsvirðingu sinni og rétta leiðin til að fólk geri það er ekki að skaffa því skúra til að sukka í heldur að hjálpa þeim að finna hversu miklu betur því líður með að verða laus við fíkniefnin, fá vinnu við hæfi, geti orðið stolt að vinna sér inn laun fyrir mat og húsaskjóli og eiga kannski eitthvað auka. Fá aðstoð dagega til að standast þessa fíkn og framleiða eitthvað, eða hvaða störf sem hægt er að finna handa þeim í vernduðu umhverfi til að byrja með svo að einmannaleikinn yfirtaki ekki viðkomandi og reki það af stað í fíknina aftur til að deyfa martraðirnar sem hjóta að dúkka upp, einmanaleikann sem það hlýtur að fylgja því að vera búinn að flæma frá sér alla fjölskyldu og ættingja og vini.

Tökum höndum saman og gerum þetta að þjóðfélagi fyrir alla ekki bara suma.  

 


Sitja með Bónuspoka og smyrja brauð.

Finnst dásamlegt að sjá viðbrögð fólks við mismunandi verslun viðskiptavina og þá helst ferðamanna. Einn minntist á þetta með að útlendingar væru að smyrja sér brauð og notuðu til þess borðin sem hægt væri að setjast við. Fannst þetta svona hálfgerð gremja yfir því að fólkið væri ekki að versla það sem væri í boði á kaffi- og veitingahúsum götunnar. Það er eins og hann geri sér ekki grein fyrir að fólk almennt veður ekki í seðlum og finnst oft skemmtilegra að gera sitt eigið nesti í stað þess að setjast inn í góða veðrinu og kaupa rándýrt bakkelsi eða mat. Saddur og ánægður viðskiptavinur gefur sér tíma til að versla og skoða sig um. Stundum er eins og íslensk verslun geri sér ekki grein fyrir að til að ná í viðskiptavini verður maður að aðlaga sig að vilja þeirra.

Í fréttinni er viðtal við konu sem hefur aðlagað sig að vilja viðskiptavina og er hæstánægð með sumarverslunina. Nefnir einmitt að rigningin hafi jákvæð áhrif, því þá komi fólk inn úr rigningunni og gefi sér tíma til að versla. Þetta kallast að læra af reynslunni, læra á hvaða verð sé boðlegt, hvaða vörur séu eftirsóttar og hvað viðskitpavinurinn vill. Jákvæðin, eftirtekt og vilji til að lifa af.

Ég fer sjaldan niður laugaveg en geri það þó annað slagið, en sjaldan sem eitthvað vekur áhuga minn til að taka upp budduna því vöruframboð er nær eingöngu miðað við ferðamenn og verðið eftir því. Spurning að setjast niður og gera þetta að aðlaðandi götu sem gaman er að skoða og eftirsóknarvert að versla á, bæði fyrir innlenda og erlenda.  

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/10/sitja_med_bonuspoka_og_smyrja_braud/

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband