Er ekki kominn tími til að lögleiða fíkniefni og viðurkenna að ósigur í baráttunni gegn þeim?

Margar skoðanir og sterkar eru um lögleiðingu fíkniefna og eins og okkur hættir til þá eru menn fordæmdir fyrir að voga sér að tala um lögleiðingu. Allt fleiri viðurkenna að með því að stimpla einhverja vímugjafa sem ólöglega þá séum við að byggja upp undirheima sem verða öflugri og öflugri. Veltan er gífurleg og eins og þegar peningar eru annars vegar þá svífst fólk einskins til að verja sinn hag.

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttadómari var í viðtali á útvarpsþættinum Harmagetton (hér)og sagði meðal annars að vímuefni hefðu fylgt mannkyninu allar aldir og nú værum við með einn vímugjafa sem væri löglegur, áfengið, á meðan aðrir vímugjafar væru ólöglegir. Við værum að eyðileggja líf ungs fólks með því að fordæma neyslu slíkra efna og senda ungt fólk í fangelsi í stað þess að hjálpa þeim.

Ég hef verið að mynda mér skoðun á þessu og rætt þetta við marga en það eru kostir og ókostir með lögleiðingu. Við myndum losna við þetta úr ósýnilegri undirheimastarfssemi og minnka aðdráttaraflið þangað, þar sem peningaveltan  myndi nánast hverfa. Aftur á móti væri hætta á því að þeir sem þegar væru fastir í undirheimunum, eða stjórnuðu þar, myndu finna sér aðra verslunarvöru, t.d. mannsal, vændi, þrældóm (ræna fólki og láta það vinna í verksmiðjum fyrir ekki neitt) og eflaust eitthvað fleira sem þeim dytti í hug.

En ég segji eins og Jón Steinar og fleiri, látum reyna á þetta, látum reyna á að í stað þess að henda fólki í fangelsi fyrir neyslu slíkra efna, virðum þau sem manneskjur og hjálpum þeim til að hjálpa sér sjálf. SÁÁ er til staðar og með smá stækkun þá væri svo auðvelt að hafa lokaða deild þar sem burðardýr og þeir sem eru háðir neyslu slíkra efna er gefinn kostur að losna úr viðjum þessara efna. Það er til svo margar aðferðir til að ná árangri, smá hlýja og mannlegt viðmót er oft það sem þetta fólk þarf á að halda í stað grjótharðrar fangelsisvistar og ámynningu um það að ef þú bjargar þér ekki sjálfur þá gerir það enginn. Þér er gefinn kostur á að vinna af þér skuld með því að gerast burðardýr eða hótað hinu og þessu ef þú gerir það ekki.

Obama forseti Bandaríkjanna er á þeirri línu að við leysum ekki vandann með því að henda fólki í fangelsi, heldur sé lausnin að hjálpa þessu fólki (hér) en læknavísindin hafa sannað að það er hægt að lækna þá sem ánetjast fíkniefnum og því nauðsynlegt að hjálpa því í stað þess að refsa.

Einu sinni faldi fólk börnin sín sem voru þroskaheft, það skammaðist sín fyrir þau, það þótti ekki fínt, krökkunum var komið fyrir á einhverju „fávitahæli“ og foreldrar heimsóktu börnin sárasjaldan því það þótti hafa slæm áhrif á þau að foreldrarnir kæmu í heimsókn, þau voru svo óþekk þegar foreldrarnir væru að fara og óþægindi fyrir starfsfólk. Þessi litlu grey vildu auðvitað bara fá ást og umhyggju og fara heim með foreldrunum. Eru þetta ekki börn einhvers sem á í vandræðum, erum við með samtök, hópa sem gefa þessu fólki tækifæri á að tala um sín vandræði, hvernig á að bregðast við. Leitum lausna í stað þess að þrjóskast við og henda þeim bara í fangelsi.

Hvað vilt þú, hvað heldur þú að sé betra? Fela þetta í undirheimum og herða fólk upp með fangelsisheimsóknum reglulega eða gefa fólki tækifæri á að fá hjálp? 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Auðvitað á að lögleiða svokölluð fíkniefni og láta Ríkið selja þau og láta hagnaðinn fara í sjóð til að hjálpa fíklum að komast út úr þessum vanda.

Hvað sem er gert eða ekki gert þá verður það alltaf einhverjir sem verða fíklar alveg eins og það verða alltaf einhverjir sem verða alkahólistar.

Tími kominn til að taka vezlaun á fíkniefnum úr höndum undirheimana og lögleiða fíkniefni.

Kveðja frá Houston.

Jóhann Kristinsson, 26.11.2013 kl. 10:37

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála þessum pistli þínum Brynjólfur, Það er ólíðandi þetta ástand og svo allt unga fólkið sem sviptir sig lífi vegna þess að þau hafa ekkert framundan, það er komið nóg. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.11.2013 kl. 12:12

3 Smámynd: Brynjólfur Tómasson

Já Jóhann það eru engir smáaurar sem undirheimarnir eru að velta en ég hef ekki séð tölur um það. Eins og þetta er í dag þá erum við með eitt leyfilegt fíkniefni þ.e. áfengi en í dag fáu við allavega tekjur af áfengi sem að hluta er varið í forvarnir og eflaust fer eitthvað uppí þann sjúkrakostnað sem neytendur áfengis þurfa á að halda. Eins væri hægt að hafa þetta með fíkniefni. Við erum ekki að sjá glæpaklíkur sem selja smyglað áfengi, en við erum að sjá þvílíkt magn fíkniefna og ég lít á það sem jákvætt að þetta komi uppá yfirborðið svo hægt sé að bjóða neytendum þá hjálp sem þau þurfa til að hætta.

Brynjólfur Tómasson, 26.11.2013 kl. 14:24

4 Smámynd: Brynjólfur Tómasson

Já, Asthildur, þetta verður alltaf vandræðamál sem erfitt er að vita nákvæmlega hvað er rétt, en eitt getum við verið sammála um að þegar ekkert er gert þá skilar það engum árangri. Hvað var í fréttum um daginn? Jú, það á að segja upp 10 tollvörðum. Sem segir okkur það að hinir sem eftir verða komast ekki yfir að kanna allt.

Brynjólfur Tómasson, 26.11.2013 kl. 14:28

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já áherslurnarn eru kolrangar bæði við leit að fíkniefnum, áherslurnar á það hvort betra sé að framleiða þetta hér heima eða flytja inn og ekki síst að fálma sífellt í þá sem minnst mega sín í þessu sambandi og sem minnst hafa með málin að gera, þ.e. fíklana.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.11.2013 kl. 14:37

6 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sammála þér nafni!

Brynjólfur Þorvarðsson, 26.11.2013 kl. 15:28

7 Smámynd: Brynjólfur Tómasson

Dómaframkvæmd hefur verið þannig hér á landi að þeir sem hafa ræktað kannabis efni hafa hlotið vægari dóma en þeir sem hafa smyglað inn samskonar efnum. Af hverju það er veit ég ekki, og væri gaman að vita ástæðuna, en kannski eru þeir sem eru að smygla þessu inn, með alvarlegri brotaferil að baki. En eins og ég segji, þekki það ekki. Það má segja að með því að svo mikið af efnum séu í gangi hér á landi þá sé lögreglan/tollurinn, búin að gefast upp en taka sig til annað slagið til að sýna að þeir séu ekki alveg hættir. Smá hræðsluáróður fyrir smákrimmana svo allir fari nú ekki að smygla inn.

Brynjólfur Tómasson, 26.11.2013 kl. 16:22

8 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Svo má nú benda á gjaldeyrissparnaðinn ef þessi fíkniefni væru framleid á Íslandi, gjaldeyri sem íslendingar eiga ekki of mikið af.

Það má framleiða mikið af þessum fíkniefnum á Íslandi en kanski ekki öll, og þó, það er hægt að framleiða ýmislegt í gróðurhúsum.

Svo mundi skapast atvinna af þessu sem væru skattatekjur til Ríkisins og minna atvinnuleysi, en auðvitað mundi kostnaður við fangelsi Ríkisins stór lækka.

Kveðja frá Houston.

Jóhann Kristinsson, 26.11.2013 kl. 18:34

9 Smámynd: Brynjólfur Tómasson

Mest var ég að spá í að við þurfum að bæta okkur í því að hjálpa fólki og lögleiða fíkniefni til að fá fíklana til að koma upp á yfirborðið. Einnig til að fólk sé frekar dæmt til að fara í lokaða vist á t.d. SÁÁ þar sem það fær að láta vímuna renna af sér og sjái að þetta er ekkert líf, en til þess þarf fólk að vera í meðferð í lengri tíma. Þar erum við gjörsamlega út á túni eins og er og þetta þarf að bæta. það að dæma ungan einstakling í fangelsi fyrir t.d. að hafa verið burðardýr til að borga skuldir sínar, er ekki rétt meðhöndlun. það ætti frekar að láta þetta fólk eiga möguleika á þvi´að losna úr viðjum fíkninnar og ná tökum á henni.

Ég sé ekki að það beri árangur að eins og við höldum á málum í dag og hvað eigum við að gera, ganga á vegg endalaust og sjá að það leysir ekki málin en samt höldum við áfram á sömu braut. Er ekki kominn tími til að prófa einhverja aðra aðferð? Ég tel að svo sé og vona að fleiri taki undir það, kannski er til önnur leið en þessi stefna sem er til staðar er löngu búin að sanna það að hún er úrelt og gengur enganveginn.

Brynjólfur Tómasson, 26.11.2013 kl. 20:36

10 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ekki er ég kunnugur þessum alkahól og fíkniefna vandamáli, en mikill fyrrverandi alkahólisti sem loksins hætti að drekka sagði mér að alkahólistinn og fíkillinn þurfa að vilja hætta annars gengur þetta ekkert upp.

Hugsunin það væri gott að hætta ef ég get það gengur ekki, eftir því sem þessi maður sagði mér. Hann hafði reint þá aðferð oft og það gekk ekki.

Einn góðan veðurdag sagði hann að hann væri hættur, það gekk og hann drakk ekki áfenga drykki eftir það. Hann þurfti ekki á hjálp að halda, en það eru ekki allir eins harðir af sér og þessi maður og þurfa kanski styrk og hjálp til að byrja með.

Sem sagt að vilja hætta er númer eitt, en svo má kanski aðstoða fólk meðan það fer í gegnum "afvötnun" so to speak, þar er kanski hægt að gera betur.

Það sem fer verst með fíklana er fangelsisvistin, af því að þegar þeir koma út þá villja fáir eða jafnvel enginn ráða þá í vinnu.

Þess vegna aðlagast fíklarnir ekki að þjófélaginu þegar þeir koma út úr fangelsum og enda aftur á götuni og í fíkniefnunum aftur.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 26.11.2013 kl. 22:22

11 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Hugsið alla tollarana sem við getum sparað okkur, alla leitarhundana sem hægt er að nota í snjóflóðaleit í staðinn; við gætum sleppt fíknó, og notað peninginn sem fer í þá njósnadeild í annað; við hefðum aðeins styttri biðlista á hraunið.

Og þessir fíklar mættu kannski stundum í vinnu - þeir ku gera það í Portúgal. Og þeir eiga það til hér í eyjum.

Lögleiðum bara allt saman.

Á móti legg ég til að fólk hætti að dæla ritalíni og öðrum efnum í krakkana sína að þeim óforspurðum, ég er ekkert viss um að það sé eitthvað über skynsamlegt.

Ásgrímur Hartmannsson, 26.11.2013 kl. 22:23

12 identicon

Tek undir það að "stríðið gegn fíkniefnum" er tapað. Það er kominn tími til að við horfumst í augu við það.

Sævar (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 01:02

13 identicon

Það má öllum vera það löngu ljóst að þeir sem styðja við stríðið gegn fíkniefnum eru versta vandamálið í þessum málum

DoctorE (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 09:13

14 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þegar bannið skilar einungis glæpum, hörmungum og offramboði á svokölluðum eiturlyfjum í undirheimaviðskiptunum, þá getur ástandið ekkert annað en batnað við að koma sölunni uppá yfirborðið undir eðlilegu eftirliti. Tollgæsla landsins er ekki látin stoppa þetta, og þá verður að leyfa söluna.

Það þarf ekki að velkjast í vafa um hvort væri skárra, bann eða lögleiðing, þegar allt er núna eftirlitslaust og vaðandi í þessum ólöglegu efnum. Börnin og unglingarnir eru notuð til að fjármagna hvítflibbamafíuna. Manni verður hreinlega flökurt af svona viðbjóðslegri stjórnsýslu, sem gerir út á að venja unga fólkið á þennan glæpavædda söluvarning.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.11.2013 kl. 09:20

15 Smámynd: Brynjólfur Tómasson

Hvers vegna eru undirheimarnir svona öflugir hér á Íslandi í svona litlu samfélagi. Við erum ekki nema rúmlega 300.000 manna þjóð og allir þekkja alla en samt erum við með hvert gengið áf fætur öðru. Erum við svona miklir fíklar að við erum að sproðrenna öllu þessu, ég er reyndar í skóla og hefði trúlega ekki efni á því að kaupa mér eiturlyf en ég velti því stundum fyrir mér hvaðan allur þessi peningur kemur? Hvaðan kemur allur þessi gjaldeyrir til að kaupa þessi efni? Er ekki gjaldeyrirshöft, þarf maður ekki að fara með miðann sinn í bankann og þá fær maður gjaldeyrir. Þarf maður ekki að sýna framá að maður sé að fara að greiða einhvern reikning fyrir vöru sem verið er að flytja inn. Hvernig nær þetta fólk í gjaldeyrir. Væri gaman að heyra það frá einhverjum sem það veit.

Brynjólfur Tómasson, 27.11.2013 kl. 10:15

16 identicon

Neysla fíkniefna á að vera refsilaus. Varsla fíkniefna í smá skömmtum á að vera refsilaus. Það á að íhuga alvarlega að lögleiða fíkniefni sem nú eru ólögleg. Afhverju? jú núverandi stefna er ekki að skila þeim árangri sem að var stefnt. Sem faðir þá vill ég að börnin mín þurfi ekki að sitja í fangelsi fyrir að misstíga sig í lífinu og vera útskúfuð af öllu samfélaginu fyrir það eitt að nota ólögleg fíkniefni. Sem faðir þá vill ég að börnin mín þurfi ekki að skammast sín fyrir hver þau eru ef þau fara í neyslu og að þau geti leitað sér aðstoðar ef þau óska þess án þess að eiga á hættu að vera fordæmd eða refsað. Það getur vel verið að einhverjir munu prófa fíkniefnin ef þau yrðu lögleg sem ekki hefðu gert það ella. En flestir af þeim sem það prófuðu munu neyta sér að skaðlausu, nema þeir sem finna einhverja lausn í að nota fíkniefni að staðaldri en það eru bara örfáir einstaklingar sem að öllum líkindum hefðu prófað fíkniefni hvort sem þau væru lögleg eða ólögleg. Ég gæti ritað master ritgerð um jákvæðu hliðar þess að lögleiða fíkniefni en stutta svarið er að þrátt fyrir lengri dóma vegna fíkniefnabrota, hertar lögreglu aðgerðir og tollaðgerðir þá fjölgar fíkniefnaneytendum og það fjölgar dauðsföllum fíkniefnaneytenda. 12-13 ára börn eru farin að sprauta sig með amfetamíni, rítalíni eða morfínskyldum lyfjum. Strákar og stelpur á aldrinum 11 ára og uppúr eru að selja líkama sinn fyrir næsta skammti og svefn stað þrátt fyrir bann á fíkniefnum. Ég segi við höfum engu að tapa því við erum búin að tapa þessu stríði gegn fíkniefnum. Við þurfum bara að þora að taka ákvörðun um breytt viðhorf og marka okkur nýja stefnu sem er mannúðlegri en sú sem við höfum núna. Dópið er komið til að vera, ástandið versnar bara að öllu óbreyttu eins og það hefur gert en spurningin er hvernig ætlum við að bregðast við og hverju ætlum við að breyta.

Jón Ingi Smárason (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 10:57

17 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þetta innlegg Jón Ingi, ég tek undir hvert orð, og vil aðeins bæta við af því ég þekki vandamálið, ég vil getað leitað aðstoðar lögreglu og félagslmálastofnunar við að fá hjálp fyrir barnið mitt sé það komið í neyslu an þess að yfirvöld geri það umsvifalaust að glæpamanni.  það þýðir bara eitt, ég get ekki leitað mér aðstoðar þar, því þá geri ég barnið mitt að glæpamanni.  Þetta er einfaldlega óþolandi ástand.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.11.2013 kl. 11:28

18 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Ég er ekki sáttur við orðið "lögleiða" mér finnst svona liggja í orðinu að ég verði að drifa í því að fá mér pípu eða í nös verði þetta lögleitt, það er eitthvað sem ég bara get ekki hugsað mér að gera.  Getur ekki verið að orðið að leyfa lýsi betur þeim óheilla gerningi sem þetta er. 

Kjartan Sigurgeirsson, 27.11.2013 kl. 12:46

19 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hvað sem það er kallað, meiningin er að það sé ekki saknæmt að neyta þessara efna, frekar en víns og tóbaks. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.11.2013 kl. 13:18

20 Smámynd: Brynjólfur Tómasson

Jú það er alveg hægt að kalla þetta að leyfa, ég sagði bara lögleiða því það þarf að setja um það lög. Það er svo sem engin regla á því hvernig maður segir það. Nógu óheillavænlegt sem þetta er alltsaman.

Brynjólfur Tómasson, 27.11.2013 kl. 13:19

21 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir það.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.11.2013 kl. 13:29

22 Smámynd: Brynjólfur Tómasson

Við getum eins sagt það upphátt að það sem verið er að gera með því að halda þessu bönnuðu er verið að friða samviskuna. Þá er hægt að segja, þetta er bannað og því auðveldara að fyrir stjórnvöld að kasta frá sér ábyrgðinni. Væri þetta lögleitt væru stjórnvöld í raun búin að taka vandann á sínar herðar með þeim tilkostnaði sem það verður. Hvaða vinnubrögð eru það að hafa ekki almennileg úrræði fyrir þetta fólk, hvaða vinnubrögð eru það hjá lögreglu að um 90% af öllum innflutningi kemst á markað hérlendis. Jú, stjórnvöld hafa ekki pening til að setja í þetta. Þetta er jú bannað og þeir sem neyta þessarra efna eru jú glæpamenn, svo hvers vegna ættu þau að auka útgjöld ríkisins, auðveldast bara að henda þeim í fangelsi og máiið er dautt, þar til næst. Stjórnvöld eru ansi dugleg við að koma því út af borðinu sem er vandamál. Hvernig er með SÁÁ, eru þeir ekki að safna sjálfir til að geta rekið þá þjónustu sem er virkilega árangursrík og góð. Ekki til aur en samt er áfengi skattlagt og tekjur af því. Það er svo margt rotið í kringum mörg mál að það væri hægt að sitja hér og skrifa endalaust en kannski maður fari í eitthvað af þessum málum þegar námið er á enda og geri eins og LÍÚ og fjármálafyrirtækin, hafi svona "lobbýista" á Alþingi til að þrýsta á sín mál.

Brynjólfur Tómasson, 27.11.2013 kl. 13:31

23 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Það eina jákvæða sem ég sé við að þetta verði leyft er að þá eru það ekki glæpalýðurinn sem otar þessu að börnunum, heldur fjármálaráðherrann, maður skyldi ætla að hann sé ekki í flestum tilvikum jafn aðgangsharður. Hvaða orð er notað skiptir ef til vill ekki máli, ég veit ekki hvað ræður málskilningi, en hjá mér er hann einhvernvegin á þá leið að lögleiðing eigi frekar við eitthvað sem á við alla og allir verða að gangast undir, eins og sem dæmi þegar hægri umferð var lögleidd hér á landi 1968, það gilti um alla, sem ég vona að lögleiðing eiturlyfja, vændis og annarra hluta af sama meiði geri ekki.

Kjartan Sigurgeirsson, 27.11.2013 kl. 14:17

24 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

En eruð þið ekki að gleyma þeim þúsundum sem eru að fara að lögum og nota ekki fíkniefni? Ef ekki verður lengur lögbrot að nota fíkniefni er ég ansi hræddur um að vandinn stækki mikið. Þá eru þeir múrar farnir sem varna því að fólk sem almennt vill ekki brjóta lög noti fíkniefni. Um leið væri verið að senda þau skilaboð að það væri allt í lagi að neyta fíkniefna. Ég myndi miklu heldur herða refsingar fyrir sölu, framleiðslu og innflutning fíkniefna mikið, kannski svona tífallt og gera svo notendum fíkniefna sem nást minni refsingu, en með þeirri breytingu þó að gert yrði opinbert á áberandi hátt að viðkomandi hefði verið dæmdur fyrir neyslu og þá nánari útlistun á því. Með þessu væri að ég held betur ráðist að rót vandans og fælingarmátturinn aukinn mikið þannig að færri myndu byrja að nota fíkniefni. Semsagt það á ekki að lögleyða slæma hluti "bara" af því að "svo margir" séu að gera þessa slæmu hluti.

Góðar stundir.

Högni Elfar Gylfason, 28.11.2013 kl. 09:21

25 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Högnu takk fyrir þessa spurningu.  Við henni eru nokkur svör.  Eitt er til dæmis að aðgengi að eiturlyfjum af allskonar tagi eru allstaðar fljótandi um.  Það þarf bara að rétta út hönd til að fá slíkt.  Meira að segja læknadóp virðist ganga kaupum og sölum.  Að segja hvað með alla hinga, sem ekki neyta, er það að segja að það er af því að það fólk hefur tekið þá góðu afstöðu að neyta ekki slíkra lyfja.  Sem er afar gott mál. 

"og gera svo notendum fíkniefna sem nást minni refsingu, en með þeirri breytingu þó að gert yrði opinbert á áberandi hátt að viðkomandi hefði verið dæmdur fyrir neyslu og þá nánari útlistun á því" Og hvað heldur þú að þetta skilaði?  Ég get sagt þér það, meiri útskúfun, meira niðurbrot, Missi vinnu og svo framvegis. 

Þú lítur sem sagt á fíkla sem glæpamenn sem þarf að refsa, helst óhóflega, það er einfaldlega rangt, fíklar flestir hafa leiðst út í neyslu sem þeir ráða ekki við, og líður illa yfir, það vill enginn vera fíkill, hvort heldur sem er á brennivín, sigarettur eða önnur fíkniefni.  Málið er að af einhverjum duttlungs ástæðum eru alkóhól og sigarettur ekki talin með fíkniefnum, þó eru þau jafn skaðleg í flestum tilfellum.   Hvað hafa margir ökumenn drepið aðra með að aka fullir, hvað hafa margir dáið eða eru sjukrahúsmatur vegna reykninga, og hversu  margir eru hreinlega þannig af óbeinum reykingum?

Fælingarmáttur er ekki til i orðabók fíkils, þar er einungis krafa um að fullnægja þörfinni, þess vegna er hann kallaður fíkill. 
Það er ömurlegt að lifa við það að geta ekki verið sjálfstæður og látið þessi efni vera.  Horfa upp á fjölskylduna sína þjást og að lokum enda á götunni, smáður og hvergi höfði sínu að halla.  

Nei ágæti Högni fólk sem talar svona eins og þú, getur ekki sett sig inn í þessa veröld og þær þjáningar sem þar lifa góðu lífi.

Fíklar eiga ekki að fara í fangelsi, þeir eiga að fá lokaða meðferðarstofnun sem leiðir þau á rétta braut.

Hvað varðar þá sem skipuleggja þetta bæði innflutning og dreyfikerfi er ekki verið að reyna að ná í.  Eða hefur þú heyrt af því að einhverjum slíkum hafi verið náð? Þeir sem eru teknir fyrir innflutning, eru flestir svokölluð burðardýr sem eru pínd til að fara og sækja efni, annað hvort vegna þess að þeim er hótað limlestingum eða þau verða að fjármagna sína eigin neyslu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.11.2013 kl. 11:37

26 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Högni átti þetta að vera, fyrirgefðu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.11.2013 kl. 11:38

27 Smámynd: Högni Elfar Gylfason

Sæl Asthildur.

Ég er hræddur um að þú hafir misskilið mig. Ég nefndi minni refsingu fyrir neytendur en ekki meiri, refsilaust er samt ekki valkostur að mínu mati. Fælingamætti við að gera neyslu einstaklings opinbera er beint að þeim sem ekki eru nú þegar neytendur fíkniefna og því í mínum huga forvörn þannig að færri byrji á þessum slæma ávana. Hin leiðin að gera það refsilaust að nota fíkniefni er eins og að segja börnum og unglingum að það sé nú ekki svo slæmt. Svo minntist ég hvergi á að ekki ætti að hjálpa fólki að losna úr viðjum fíkniefna því að sjálsögðu þarf að gera allt til þess og lokuð meðferðarstofnun sem dómari sendir þig í getur vel verið hluti af "refsingu". Fangelsi eru ekki eina hugsanlega refsingin sem fæli í sér fælingarmátt. Varðandi mína persónulegu hagí, þá er það rétt hjá þér að ég get ekki vel sett mig inn í heim fíkniefnaneytenda, allavega ekki þeirra sem viðurkennd eru sem fíkniefni í dag. Það sviptir mig þó varla rétti til að hafa skoðun á því hvernig þjóðfélagi við lifum í og viljum lifa í. Að lokum varðandi síðustu fullyrðingar þínar um að ekki sé verið að reyna að ná í þá sem flytja inn og skipuleggja fíkniefnasölu, þá er það stórfrétt á mínum bæ því ég hélt að það væri nú það sem fyrst og fremst væri verið að reyna!!! Eitt enn...það hvort fíklar séu glæpamenn kemur því ekkert við hvort mér finnist það eða ekki, heldur helgast af landslögum hverju sinni.

Góðar kveðjur.

Högni Elfar Gylfason, 28.11.2013 kl. 13:36

28 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég sá alveg hvað þú varst að segja Högni, af hverju á að refsa veiku fólki?  Væri ekki nær að hlú að því og koma þeim til bjargar með því að opna lokaða meðferðardeild fyrir slíka.  Af hverju viltu niðurlægja það fólk til að varna öðrum vítis, er ekki betra að reka áróður almennt fyrir hættum og afvegaleiðingum sem fíkn hefur í för með sér?

Það er rétt hjá þér Högni minn að þeir sem ekki hafa lent í því að þetta böl lendi á þeim sjálfum og fjölskyldum þeirra geta illa sett sig inn í þá veröld og hrylling sem það er.  Og auðvitað máttu hafa þína skoðun á málunum.  Þess vegna er ég að setja þig inn í málin frá minni síðu, því ég þekki þau allof vel og einnig hve víðtæk þau eru og nánast inn á hverju heimili í landinu. 

Hvort fíklar eru glæpamenn eða ekki, er grundvallar atriði til skilnings á því að það þarf að aðstoða þá og hjálpa.  Í dag eru þeir meðhöndlaðir sem glæpamenn fyrir það eitt að hafa leiðst út í neyslu.  Og með því að glæpavæða þessa unglinga, er þeim neitað um þá aðstoð sem þau þurfa á að halda út í þjóðfélaginu.  Það er grundvallar spurning en ekki eitthvað eitthvað svona til hliðar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.11.2013 kl. 13:48

29 Smámynd: Brynjólfur Tómasson

Eitt sé ég að það verður ekki létt verk að finna leið svo öllum líki enda er það kannski ekki takmarkið. Takmarkið er að losna við glæpaklíkurnar sem ráða hér lögum og lofum.

Hver vill að barnið sitt lendi í dópneyslu? Enginn

Sé maður svo óheppinn þá tel ég að betra sé vitandi af barninu sínu meðal afgreiðslumanna í ÁDVR (áfengig og dópverslun ríkisins)heldur en að vera innan um dópsala sem pranga inná stúlkur meira en þær vilja með því að gefa þeim frítt bara fyrir smá blíðu. Ógeðfelld hugsun sem ég get ekki sætt mig við. Við erum búin að komast að því að eitthvað þarf að gera. Umræðan þarf að fara af stað og halda áfram þangað til að eitthvað er gert. Það deyja allt of margir af völdum fíkniefna og ef lögvæðing er ekki málið hvað er þá hægt að gera?

Brynjólfur Tómasson, 29.11.2013 kl. 11:19

30 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Heyr Heyr ! Brynjólfur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2013 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband