Stýrivextir eru allt of háir

Samkvæmt grein á mbl.is í dag kemur fram að greiningadeild Arionbanka spáir því  að stýrivextir muni haldast óbreyttir.

Fyrir það fyrsta. Hvers vegna erum við að birta greiningu banka sem er gjörsamlega óhæfur um að greina ástand fjármálamarkaðarins? Hér er um nákvæma eftirlíkingu af því sem fræðin segja og hver einasti maður gæti gert heima í stofu sem hefur eitthvað vit á hagfræðikenningum, þó hann væri ekki mjög kunnugur því sem er í raun að gerast í þjóðfélaginu. Mikil greining það og eins og fyrir hrun þá vitum við að bankinn birtir það sem honum þykir hagnast sér vel. Þetta er svona eins og að spyrja bílasala hvort það sé eitthvað vit í því að kaupa bíl núna. Ekki mætt þeim sala ennþá sem hefur sagt nei.  

Seðlabanki Íslands er í raun fyrirsjáanlegur, þeir sem þar stjórna eða þeir sem sitja í þeirri nefnd sem stýrir hvaða vexti skuli hafa, eru auðvitað að hugsa um hag þeirra fjármálastofnanna sem þurfa að fá inn fjármagn til að ávaxta. Ekkert að krónunni segja þeir en samt sem áður þurfum við að halda hér háu vaxtastigi til að laða að erlent fjármagn, til að krónan falli ekki enn meira. Til að við fáum inn erlendan gjaldeyri.

En hverjir borga brúsann og af hverju eru íslensk fyrirtæki ekki að flytja það mikið út að það dugi til að anna gjaldeyriseftirspurn? Gæti það verið vegna þess að við búum við hávaxtastefnu?

Jú, auðvitað er það íslenskur almenningur og íslensk fyrirtæki sem borga brúsann, borga háa vexti til þess að erlendir fjárfestar vilji fjárfesta hér. Íslensk fyrirtæki verða þá ekki samkeppnishæf við erlend fyrirtæki því þau sitja ekki við sama borð. Fjármagn verður svo dýrt að hagnaður verður of lítill til það borgi sig að fara í samkeppni við erlend fyrirtæki.  Launakostnaður er hlægilega lítill hér miða við t.d. iðnaðarrisann Svíþjóð en samt náum við ekki að framleiða neitt sem heitið getur. Aðeins yfirburðafyrirtæki á markaði með sérhannaða vöru sem sker úr fyrir afburðagæði og tæknikunnáttu, ná að hasla sér völl á alþjóðamarkaði. Og jú gleymi lyfjaframleiðslu en þau blómstra því launakostnaður er lítill og álagning mikil.

Mín tillaga, lækkið stýrivexti, niður í nánast núll, fjárhagsvandamál landsmanna mun nánast hverfa, áhrif verðtryggingar munu nánast hverfa, fyrirtæki munu spretta upp því ég vantreysti ekki mínum landsmönnum, hvað varðar samkeppnishæfi, ég veit að við „rústum þessu“ ef við bara fáum möguleika á að fá ódýrt fjármagn og möguleika á að vinna á sama grundvelli og aðrar þjóðir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband