Hvert er hlutverk verkalýðshreyfingarinnar og er hún að sinna því hlutverki?
23.11.2013 | 14:49
Stundum hef ég það á tilfinningunni að fólk þori ekki að viðra skoðanir sínar af ótta við að styggja vinnuveitanda sinn, styggja væntanlega viðskiptavini, styggja lánastofnanir, styggja einhvern sem á hlut að máli. Vel skiljanlegt afstaða því það eru margar hliðar á hverju einstöku máli.
Ég er að ljúka námi í lögfræði og því sönn ánægja og jafnframt skylt að hugsa um hag skjólstæðings míns. Ég veit að fari ég í það verja hvort sem er sekan ógæfumann eða saklausan einstakling sem hefur verið ranglega ákærður mun ég þurfa að gefa mig 100% í málið. Allir eiga rétt á að fá sína sögu sagða, allir eiga rétt á að verja sig, það á ekki að vera mér að kenna þó einhver glæpamaður komist upp með ódæðisverk heldur er það lögin sem taka þá ekki rétt á málum.
Ekki skjóta boðberann ef hann vinnur sinn verk af alúð, en ef hann er að vinna á móti því sem hann er ráðinn til að gera þá tel ég að boðberinn eigi að víkja. Verkalýðsforustan, kjaranefndir verkalýðsfélaganna eiga að víkja ef þær hafa ekki staðið sig, og það eru víst fæstar sem hafa gert það. Við erum að tala niður til kjararáðs. En hvað eru þeir að gera? Jú, það sem þeir eru fengnir til að gera. Leiðrétta laun viss hóps, en kjararáð er fengið til að leggja mat á hvað telst sanngjörn hækkun miðað við ytri aðstæður. Ætti ekki að vera flókið fyrir verkalýðshreyfinguna að skoða þær forsendur sem kjararáð fer eftir.
Hvers vegna er þá ekki gert meira til að krefjast réttlætis á þeim málum sem auðsjáanlega eru í lamasessi? Af hverju er verkalýðshreyfingin ekki að standa sig? Af hverju er sami formaður ár eftir ár þó hann hafi margoft sýnt og sannað að hann er ekki að sjá hlutina frá sama sjónarhorni og launþeginn? Eflaust bráðvelgefinn maður en bara ekki alveg að standa sig í starfi, því hann á að sjá hlutina frá sjónarhorni launþegans og verja hagsmuni launþegans.
Atvinnurekandinn vill fá eitthvað fyrir þá áhættu sem hann er að taka með því að stofna fyrirtæki en margir þeirra eru ekki eins og verið er að hamra á í launabaráttunni. Mjög margir atvinnurekendur eru að greiða laun sem eru yfir því sem er sett sem lágmark í kjarasamningum.
Af hverju er það, spyrja sumir? Af hverju eru sumir atvinnurekendur að greiða hærri laun en nauðsynlegt er samkvæmt samningum?
Jú, þeir vita að fólk þarf að lifa af launum sínum og vita að annars fer fólk í næstu bestu vinnu ef hún býðst og launin þar eru hærri. En af hverju eru þá þeir launaflokkar sem eru í kjarasamningum svona lágir? Jú, það er einfaldlega vegna þess að verkalýðsforustan, kjarasamninganefnd er ekki að vinna vinnuna sína.
Hvaða fyrirtæki eru að greiða lægstu launin og er nauðsynlegt fyrir þessi fyrirtæki að greiða svona lág laun?
Það er eflaust jafn misjafnt og þau eru mörg, hvað myndi pylsan frá SS kosta ef lágmarkslaun sem eru greidd myndu hækka um 20%? Myndum við hætta að kaupa pylsurnar ef þær hækka um 20%? Kannski.
Hvernig getur verið hagkvæmara að flytja inn matvörur frá öðru landi þar sem launin eru hærri, en varan ódýrari hingað komin?
Það er svo margt sem spilar inní og ég ætla ekki að svara þessari spurningu um flutningskostnað og fleira, enda komið út fyrir efnið. Það sem skiptir máli hér, er að flest VERKALÝÐSFÉLÖG ERU AÐ SEMJA UM LAUN SEM EKKI ER HÆGT AÐ FRAMFLEYTA SÉR Á.
Hvernig er hægt að sitja í einhverri stöðu, í einhverri samninganefnd og semja um laun fólks sem treystir á að sá sem var valinn í kjaranefnd eða hvað sem það kallast, standi og falli með því sem kallast eðlileg skynsemi?
ÞÚ SEMUR EKKI UM LAUN SEM ÞÚ NÆRÐ EKKI AÐ FRAMFLEYTA ÞÉR Á. Þetta ætti ekki að vera svo flókið og ætti ekki að vera leyfilegt að bjóða uppá eitthvað sem er ekki hægt. Ég ætla ekki að meta hvað lægstu laun ættu að vera til að hægt sé að framfleyta sér en ég veit allavega að margir kennarar komast ekki af á sínum launum en farir þú á stað eins og Hvolsvöll þá er kennari eða leikskólakennari með mun hærri laun en t.d. þeir sem vinna við kjötvinnslu á svæðinu.
Mitt ráð til verkalýðshreyfingarinnar er, reynið nú að standa á málstað ykkar og berja í borðið. Nú er komið að því að komið verði upp reglu hér á landi sem er einföldun en sanngjörn. Ef fyrirtæki er svo illa rekið að það geti ekki greitt laun svo fólk getur lifað af á þeim, þá hefur það ekkert að gera við að vera haldið á lífi með því að notfæra sér eymd annarra, þá á ég við að notfæra sér, að takir þú ekki þessa vinnu á lágum launum þá færðu enga vinnu og engin laun.
Niðurstaða
Erum við að halda uppi fyrirtækjum sem eru ekki samkeppnishæf á markaði, með því að halda launum niðri svo þau geti starfað?
Erum við þá að skerða þjóðarframleiðslu með því að halda þessum fyrirtækjum á lífi?
Væri ekki nær að greiða fólki laun svo þau geti lifað og þurfi ekki að eyða allri sinni orku í aukavinnu á kvöldin. Værum við ekki lífsglaðari og skilvirkari vinnuafl ef launin væru RÉTT.
Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna. Hlutverk þeirra er ekki að hugsa um hag atvinnurekandans, það eru aðrir sem fara með það hlutverk. Ef fyrirtæki semur illa þá fer það á hausinn, ef við semjum illa þá förum við á hausinn. Munurinn er að fyrirtækið er fyrirtæki, launþeginn er manneskja sem þarf laun til að geta lifa og hættir ekkert að þurfa nausynjar til að lifa þó það fari á hausinn.
Hættum að hlusta á verkalýðsforingja sem segja að við verðum að hugsa um hag þjóðfélagsins þegar við erum að semja.
Hættum að hlusta á verkalýðsforingja sem eyða allri sinni orku í að berjast fyrir afnámi eða ólögmæti verðtryggingar, því það fæðir okkur ekki eða klæðir.
Hættum að hlusta á verkalýðsforingja sem telja að fyrirtækin geti ekki hækkað launin því þau hafi ekki bolmagn til þess.
Það er ekki hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að verja hag annarra en launþegans. Það er hlutverk annarra hópa að sjá um verðtrygginguna og ólögmæti hennar. Það er hlutverk þrýstihópa sem stofnaðir eru af samfélaginu og við eigum að taka þátt í. Atvinnurekandinn sér um sitt, svo verkalýðshreyfingin þarf ekkert að aðstoða þá. Þingmenn þjóðarinnar sjá um afnám verðtryggingar, þingmenn sjá um að aðlaga þjóðfélagið að því sem samið er um í kjarasamningum.
HLUTVERK VERKALÝÐSFÉLAGANNA ER AÐ SEMJA UM KJÖR FÓLKS SVO ÞAÐ GETI FRAMFLEYTT SÉR OG SÍNUM.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.