Færsluflokkur: Bloggar

Erum við okkar eigin Guð, himnaríki og helvíti?

Hefur þú farið til útlanda? Myndi þig langa til að búa þar? Finndist þér að þér væri misboðið ef það yrði sagt við þig, við viljum ekki svona morðingja og ofbeldisfólk eins og þig sem ert kristinn eins og Krossfararnir forðum, sem ert kominn af víkingum sem rændu, rupluðu og drápu. Þú hlýtur að vera trúarofstækismanneskja og varhugaverð manneskja

Margir múslímar, sem koma frá löndum þar sem ríkir einræði og landinu stjórnað með harðri hendi og öfgatrú, flýja því þeim finnst þetta öfgar. Inn á milli kemur alltaf einn og einn sem sendur er af ráðamönnum þessara landa til að reyna að halda skikki á sínu fólki með því að hóta því og hræða til að vera öfgafólk. 


Við höfum því miður átt nokkra öfgamenn sem hafa farið hamförum um heiminn, við kölluðum þá útrásarvíkinga en þeir skildu eftir sig sviðna jörð þar sem þeir komu. Ekki viljum við vera kennd við þá þó svo að við séum að fagna komu þeirra aftur á sjónarsviðið, eða sumir allavega.

 
Hver er munurinn á því að vera múslími, kristinn eða útrásarvíkingur? Eru þetta ekki allt saman öfgar hjá vissu fólki sem skilur eftir sig eintóm sár? Fyrir mér er Guð það góða í manneskjunni, Guð er sálin okkar sem segir okkur að gera góða hluti, aðstoða þá sem hafa það slæmt, og láta gott af okkur leiða og horfa á manneskjuna sem einstaka persónu án þess að horfa á hvaða lit hún hefur eða hvað henni finnst. 


Það hefur enginn séð Guð eða Satan, himnaríki eða helvíti eða þá að við erum alltaf með það fyrir augum okkar en við bara viljum ekki þekkja það. Ég held að himnaríki sé að lifa í sátt við sjálfan sig, vera ánægður með eigin gjörðir og vera ánægður með hlutskipti sitt hér á jörð. Helvíti sé aftur á móti þegar við fæðumst hér á jörð en erum ekki ánægð með hlutskipti okkar, erum alltaf að berjast við eitthvað sem kvelur okkur perónulega, eða við fæðumst í löndum eins og Ísrael, á svæði eins og Gaza eða þar sem við getum ekki um frjálst höfuð strokið sem er því miður of víða. 

Minn skilningur á Öllum trúarritum eins og Biblíunni, Kóraninu og fleiri ritum, er að þau eigi að kenna okkur nákvæmlega þetta.
Við erum bara svo dugleg að mistúlka allt og gera allt að öfgum en það er samt til fullt af fólki sem trúir því að með kærleik getir þú læknað það illa og með því að breyta sjálfur eins og þú vilt að aðrir breyti gagnvart þér, sértu að breyða út kærleikann. Hættum að tönglast á því hvort það heiti eitthvað sérstakt, hvort það heiti trú, hvort það heiti kærleikur, hvort það heiti Guð eða Satan, því þetta snýst um okkur sjálf. Ef lífið okkar geislar af innri frið, ef lífið okkar er svo aðdáunarvert að öðrum langar að verða eins og við, þá þurfum við ekki að óttast að aðrir vilji eyðileggja það. 


Við getum verið sammála um það að ef við trúum á kærleikann þá eru líkur á því að við uppgötvum himnaríki á jörð, því af hverju ættum við að öðlast himnaríki einhverntíma seinna? Af hverju ætti helvíti að verða seinna? Við erum að lifa þessu lífi núna og í næsta, ef það er til, þá tökumst við á við þann heim. Nú þurfum við að takast á við þennan og ég ætla að velja himnaríki á jörð enda stefnt að því í 53 ár að finna það innra með mér og þó að leiðin hafi oft á tíðum verið hreint helvíti þá veit ég að ég hef fundið mitt himnaríki. 


Að lokum, hugsaðu dæmið til enda, í Biblíunni stendur, Guð skapaði manninn í sinni mynd. Þar sem við vitum að það voru menn sem skrifuðu þessar trúarbækur, þá er ekki hægt að rökræða sig fram hjá því að Guð skapar hvern og einn í sinni mynd þ.e. sem Guð. Ef við trúum ekki á Guð og finnst það vera bull, þá hljótum við að vera á sama máta ábyrg fyrir gjörðum okkar og okkar eign himnaríki. Sálin, heilinn, tlfinningarnar, hvað sem þú kallar það, er til staðar, hvort sem þú trúir eða ekki og eru með eiginleikann gott og illt. Ef þú ert nokkurnveginn eðlilegur og nokkurnveginn heilbrigð manneskja, líður þér alltaf betur þegar það góða hefur yfirhöndina, þ.e. þér líður betur að rétta náunganum hjálparhönd heldur en að gera honum illt. Verum því raunsæ og okkur sjálfum trú, hættum að hunsa okkar eðli og gerum þjóðfélagið og heiminn að himnaríki á jörð.   


Áhyggjur bloggheima af ferðamennsku

Var að koma úr smá ferðalagi til Gautaborgar og var víða um borgina og sá allskonar verð hér og þar. Mér datt þá í hug spekingar bloggheima sem velta sér uppúr verðum íslenskrar ferðamennsku. Þegar maður gengur einhverja verslunargötu, fer á milli veitingastaða þá sér maður há verð, tilboð, hlægilega ódýr verð, okur, brjálæði, skynsemi og útsölur. Allskonar verð fyrir allskonar fólk. Ekki dettur manni í hug að áfellast einn eða neinn við svona verðlagningu. Allir hafa sínar ástæður að verðlagningunni, og ég tel mig fullkomlega færan um að segja nei takk við þessu dýra sem ég hef ekki minnsta áhuga á að kaupa og veit að með sömu verðlagningu dettur sá út af markaðinum von bráðar.

Markaðurinn á einmitt eftir að ráða verðlagningunni. Menn prófa sig upp og niður eftir verðlistanum þangað til að þeir uppgötva hvert sé rétta verðið. Við megum ekki gleyma að mikið af þessu fólki sem er farið í bransann er gjörsamlega óvant og telur að varan sé svo frábær að það muni allir kaupa og á miklu hærra verði, en svo kemst það að raun um að staðreyndin er önnur.

Ég áfellist ekki Gautaborg fyrir há verð, ég áfellist ekki Svíþjóð, ég hlæ bara að bjartsýni þeirra sem setja verðið of hátt. Munum að ferðamenn hafa gaman að því að sjá fjölbreytileika og fáráðnleg verð en buddan þeirra enda oft í Bónus því fólk er skynsamt þegar kemur að eyðslu á ferðalögum og ansi einhæft framboð gerir það að verkum að lítill áhugi er á að fjárfesta.

Verðum þolinmóð og þakklát fyrir að einhver tekur á móti ferðafólkinu og við getum hjálpað til með að benda á hversu áhugavert er að skoða landið. Fólk tjaldar ef verðin eru of há svo verum ekki að spá í buddu ferðamannanna.  


Örorkubætur sem hluti af útgjöldum ríkisins, af hverju hafa svona margir orðið öryrkjar?

Örorka er ekkert gamanmál og sá sem er öryrki á alla mína samúð. Hvað er verið að gera vitlaust í þjóðfélaginu sem gerir það að verkum að bótaþegum bara fjölgar? Það sem mig langar einnig að vita er hvers vegna eru framlög ríkisins til örorkugreiðslna svona háar?

Samkvæmt fjárlögum 2014 bls. 94 er hægt að sjá útgjöld ríkisins til öryrkja. Samtals eru þetta greiðslur uppá rúma 28,3 milljarða. Það sem mig myndi langa að vita hvers vegna þessi upphæð er svona há? Af hverju er þessi liður alltaf að hækka en sem hlutfall af heildartekjum ríkissjóðs(rekstrargrunnur) var þetta rúm 4.6%.

Árið 2013 var þessi upphæð rúmir 26.3 milljarðar og sem hluti af heildartekjum 4,55%.

Árið 2012 var þetta 25 milljarðar eða 4,78%

Árið 2000 var þessi upphæð  rúmir 4.5 milljarðar. Þetta var 2,27% sem hlutfall af tekjum ríkissjóðs(rekstrargrunnur) sem er að ég held ágætis viðmiðun þar sem ég hef ekki umreiknað upphæðirnar í núvirði. 

Mín hugsun er hvort ekki sé hægt að lækka þessa tölu um allavega helming með því að gefa þessu fólki kost á að endurmennta sig, vinna hluta úr degi, vinna létt störf, endurhæfing, eða annað sem mér dettur ekki í hug í augnablikinu. Ástæða þess að fólk er með örorku er margvísleg og sumir ekki í standi að vinna, en aðrir myndu með glöðu geði vinna hluta úr degi eða fá aðstoð að læra eitthvað annað sem gerir þeim kleyft að verða fær um að sjá fyrir sér og þannig styrkja sjálfstraust sitt.

Það má ekki misskilja þetta viljandi, allir sem eru á örorku eru á henni því þau eru ekki fær um að vinna en mín spurning er hvort ekki sé hægt að aðstoða þetta fólk að breyta til, bæta lífskjör sín á einhvern hátt því það verður enginn ríkur á að vera á örorkubótum nema síður sé. Við vitum að þær eru ekki nema rétt til að lifa af en samt er þetta ótrúlega há upphæð þegar á heildina er litið.  

Eins mætti taka dæmi um atvinnuleysisbætur. Er ekki hægt á einhvern hátt hægt að koma því fólki til bjargar, greiða með þeim svo þau geti verið á vinnustað og haldið sér i þjálfun og andlegu jafnvægi því það er löngum vitað að ekkert er verra en að vera atvinnulaus langan tíma.

Verum hugsandi og hugsum málið til enda ekki bara henda í fólk bætur og láta fjöldann hrannast upp sem situr heima á sultarlaunum og líður bara verr fyrir vikið.  


Okkur vantar málefni til að gleðjast yfir og fyllast þjóðarstolti.

Þegar vel gekk og allt lék í lyndi þá vorum við ansi stolt af því að búa á litla Íslandi með stóru peningakarlana, með einkaflugvélar, þyrlur, fótboltastjörnur og allt virtist leika í höndunum á okkur, við skulduðum helling sjálf í húsnæði og stýrivextir háir, en við gátum borgað af lánunum, keypt bíl og haft það bara þokkalegt. 

Hrunið 

Svo kom hrunið og við lifðum smá tíma í voninni um að þetta yrði bara stutt, fjármálasnillingarnir okkar væru svo klárir að þeir myndu finna leið útúr þessu, rétta þetta af og púff allt farið. En það gerðist ekki, það bara versnaði og reiðin magnaðist og allt breyttist í helvítins útrásarvíkingarnir og ekki var það ég sem tók þátt í þessu og ég vissi alltaf að þetta tæki enda og allir héldu endalaust áfram að tjá sig. Reiðin og gremja þeirra sem höfðu ekki tekið eftir því að lánin höfðu hækkað og jafnvel tekið auka lán til að henda öllu út úr húsnu og setja allt nýtt inn og til að kaupa fullt af hlutabréfum.

Handboltinn

Við fengum að fagna silfri á Ól 2008 og öll þjóðin tók þátt í að styðja þá, samhugurinn var mikill, við höfðum eitthvað gleðjast yfir en þá var kreppan ekki komin. Á EM 2010 lentum við í 3. sæti og svo vorum við nr. 5 á Ól 2012. Þetta var frábær árangur og varð til þess að við gátum fengið eitthvað sameiginlegt að gleðjast yfir. Eitthvað sem við gátum verið stolt af. 

Hverju öðru erum við stolt af?  

Ég veit það hreint ekki en að við erum stolt af landinu okkar, náttúruperlum þessa lands, Eyjafjallajökli sem setti okkur á kortið og hrellti Bretana aðeins en þeir áttu það inni. Öllum kvikmyndunum sem eru gerðar hér. Svo er það eitt og annað sem gerir okkur stolt annað slagið.

En 

Svo er það þetta nýjasta, græðgin er að taka yfirhöndina í ferðamannabransanum. Maður fær stundum kjánahroll yfir háu verðunum, yfir græðginni að nú skuli allir borga fyrir að skoða Geysir, eða öllur heldur Strokk og ýmis önnur svæði sem hægt er að taka gjald fyrir. Svo nú eru náttúruperlunar peningavél fyrir nokkra einstaklinga.

Gleðiefni

Okkur vantar gleðiefni, okkur vantar eitthvað til að vera stolt yfir, eitthvað sem gerir okkur stolt og við getum sagt, þetta eru mínir landsmenn, mín þjóð og ég er svo stoltur af henni. Það er einmitt það sem við höfum, við höfum hitaveituna okkar, við höfum jöklana okkar, við höfum allar náttúruperlurnar og útlendingunum finnst það bara allt í lagi að það sé rukkað. Þeir hafa val. Við höfum það betra en flestir þó við höfum það ekki eins gott og fyrir hrun. Við lifum og við leikum en við megum ekki láta allt snúast um það sem við höfum ekki. Njótum þess sem við höfum og stefnum á það að hafa það enn betra, svo tökum höndum saman og gerum þetta að betra landi. Hættum að draga allt niður í svaðið, það eru ekki allir slæmir. Verum stolt af landinu okkar og seljum túristunum afnot af því gegn hæfilegu gjaldi með hæfilegum gróða. Ef við erum stolt þá verða ferðamennirnir stoltir að hafa fengið að upplifa þetta náttúruundur.  

 

 

 


Nú spyr ég ykkur öll sem skrifið hér, hvern viljið þið sem Seðlabankastjóra

Eg ætla ekki að hafa þetta langt, heldur spyrja, hvern viljið þið fá sem Seðlabankastjóra og hverjum treystið þið í það verk. Er það núverandi bankastjóri eða einhver annar? Væri gaman að heyra hvern þið viljið og af hverju?

Er ekki aðal vandamál þjóðarinnar of lítill útflutningur?

Hvað er það sem er alltaf að hrella okkur hér á landi? Jú, það eru of háir stýrivextir en ástæða of hárra stýrivaxta er annaðhvort af því að það er þensla, verðbólga eða af því að okkur vantar gjaldeyrir. Háir stýrivextir lokka fjárfesta hingað með gjaldeyrinn sinn og við getum verslað erlendis eða greitt skuldirnar okkar. 

Er þá ekki nr. 1 að fjölga útflutningsgreinum og sjá til þess að við séum að fá inn meiri gjaldeyri en við erum að eyða?

Af hverju er það þá ekki gert, af hverju stuðlum við ekki að því með öllum tiltækum ráðum? Jú, það er til svar við því líka. Sjávarútvegurinn  og reyndar aðrar útflutningsgreinar hafa það mun betra með lágt gengi og því gott fyrir þá að hafa þetta svona eins og það hefur verið. En nú er þetta bara orðið gott að heil þjóð láti útflutningsgreinarnar ráða för því það er ekki hægt  búa við það að einhverjir nokkrir hagnist á meðan þjóðin borgar það niður. 

Hér keppast stjórnarflokkarnir að gera grín að ESB og þeirra stjórnarháttum en hvort ætli íbúar ESB eða við höfum það fjárhagslega betra? Jú ESB svo skrítið að gera grín að þeim.  Er ekki jafnvægi í útflutningi og innflutningi betra en að lifa stöðugt við þetta óöryggi. 


Seðlabankinn afsláttur á krónum og háir vextir að auki og í leyfi hvers???

Renndi aftur yfir það sem ég skrifaði um afslátt á krónum um daginn og flétti uppá heimasiðu Seðlabankans og komst þá að því að ég haðfi verið heldur hógvær í afláttunum með því að segja að við værum að selja krónuna á 80 aura. Í sumum tilfellum, er það mun meiri afsláttur sem hefur veirð gefinn en reikna það síðar nákvæmlega. Spurningin er hver getur með leyfi stjórnvalda, sett kronuna okkar á útsölu? Hver er svona valdamikill að gefa þá eign sem við landsmenn eigum???????? Ég hef aldrei verið spurður um þetta né nokkur landsmaður. 

Samkvæmt öllum venjum þá hækkar maður stýrivexti til að lokka að fjármagn og það höfum við verið að gera á kostnað landsmanna. En að halda síðan krónuuppboð og selja krónuna með afslætti svo um munar er eitthvað sem við eigum eftir að súpa seyðið af síðar þegar kemur að því að flytja þetta fé út aftur. Talandi um að búa til snjóhengju.

Kemur nánari útlistun og tilvísanir í öðrum pistli en þetta nær ekki nokkurri átt lengur.  


Sitja með Bónuspoka og smyrja brauð.

Finnst dásamlegt að sjá viðbrögð fólks við mismunandi verslun viðskiptavina og þá helst ferðamanna. Einn minntist á þetta með að útlendingar væru að smyrja sér brauð og notuðu til þess borðin sem hægt væri að setjast við. Fannst þetta svona hálfgerð gremja yfir því að fólkið væri ekki að versla það sem væri í boði á kaffi- og veitingahúsum götunnar. Það er eins og hann geri sér ekki grein fyrir að fólk almennt veður ekki í seðlum og finnst oft skemmtilegra að gera sitt eigið nesti í stað þess að setjast inn í góða veðrinu og kaupa rándýrt bakkelsi eða mat. Saddur og ánægður viðskiptavinur gefur sér tíma til að versla og skoða sig um. Stundum er eins og íslensk verslun geri sér ekki grein fyrir að til að ná í viðskiptavini verður maður að aðlaga sig að vilja þeirra.

Í fréttinni er viðtal við konu sem hefur aðlagað sig að vilja viðskiptavina og er hæstánægð með sumarverslunina. Nefnir einmitt að rigningin hafi jákvæð áhrif, því þá komi fólk inn úr rigningunni og gefi sér tíma til að versla. Þetta kallast að læra af reynslunni, læra á hvaða verð sé boðlegt, hvaða vörur séu eftirsóttar og hvað viðskitpavinurinn vill. Jákvæðin, eftirtekt og vilji til að lifa af.

Ég fer sjaldan niður laugaveg en geri það þó annað slagið, en sjaldan sem eitthvað vekur áhuga minn til að taka upp budduna því vöruframboð er nær eingöngu miðað við ferðamenn og verðið eftir því. Spurning að setjast niður og gera þetta að aðlaðandi götu sem gaman er að skoða og eftirsóknarvert að versla á, bæði fyrir innlenda og erlenda.  

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/10/sitja_med_bonuspoka_og_smyrja_braud/

 

 


Missti Landspítalinn af lestinni?

Nú þegar lögð er fram skýrsla um hugsanlegar lestarsamgöngur á milli Keflavíkurflugvallar og Umferðamiðstöðvarinnar að upphæð 102 milljarðar þá varð mér hugsað til byggingu nýs hátæknisjúkrahúss. Ég fann síðuna www.nyrlandspitlai.is en þar er seinasta frétt síðan í ágúst á síðasta ári og fjallar um hönnun hluta byggingarinnar. Ég var ekkert að hafa fyrir því að googla um þetta því ég áleit svo að fyrst þetta væri ekki á heimasíðunni þeirra þá væri ekki mikið að gerast í þessum málum.

Ég sá að með lögum nr. 64/2010 var stofnað opinbert hlutafélag ohf. "Nýr Landspítali ohf." og er markmið þessa hlutafélags að standa að undirbúningi útboðs byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Stofnhlutafé er 20 milljónir króna. 

Svo stórt er spurt. Hvað varð um byggingaráformin? Missti landsspítalinn af lestinni? Þá á ég við, erum við sjálfum okkur lík og búin að missa áhugann og langar í nýtt leikfang, eitt stk. lest ?  

 

 


Bankarnir geta ekki án ríkisvaldsins verið en getur ríkið verið án bankanna?

Bankarnir geta ekki án ríkisvaldsins verið – en getur ríkið verið án bankanna?

Í morgunblaðinu birtist grein með fyrirsögninni „bankarnir geta ekki án ríkisvaldsins verið“ (sjá hér) en við lestur greinarinnar þá varð mér hugsað til þess hvað við gerum allt flókið. Hvað er svona flókið við það að svara hvort bankarnir, sem eru með skammarblett á sér allir með tölu fyrir ólöglegt athæfi, eða ef ekki ólöglegt þá allavega óvarlegt athæfi, séu okkur nauðsynlegir. Ætla ekki að fara að leggja dóma á það hér hversu syndugir þeir eru.

Að sögn Barrys Eichengreens, pró­fess­ors í hag­fræði og stjórn­mála­fræði við Há­skól­ann í Kali­forn­íu í Banda­ríkj­un­um, þá  er nauðsynlegt að ríkisvaldið setji bönkunum reglur en þær megi ekki vera of íþyngjandi. Það gæti komi í veg fyrir framþróun fjármálakerfisins og jafnvel ógnað stöðugleika þess. Mér finnst svo gaman að orðagjálfrinu hjá fræðingunum. Framþróun og stöðugleiki, íþyngjandi reglur, allt þetta eru fögur orð og hann veit mun meira um fjármálamarkaði en ég. Ég veit að við áttum banka sem voru með ríkisábyrgð og bankarnir fóru á hausinn og ríkið þurfti að greiða fullt af peningum.

Af hverju þurfum við bankana?

Allir eða flestallir sem fá laun, bætur, styrki, eða hvaða nöfnum hægt er að kalla greiðslu frá vinnuveitenda, ríki, lánasjóð, tryggingafélagi eða slíku, fá laun sín greidd gegnum banka. Seðlar eru ekki notaðir lengur nema þá kannski þegar það er verið að vinna svart. Slíkar bankafærslur eru einfaldar, peningarnir fara inn á reikning og svo tekur sá sem á reikninginn jafnt og þétt út eftir þörfum. Þetta krefst starfsfólks sem sér um allt þetta en flestir bankar sjá líka um að lána út peninga og þannig er hagnaður fenginn til að greiða kosnað við rekstur bankans en það er líka áhætta viðútlán. Fást peningarnir greiddir tilbaka? Banki sem hefur slíka starfssemi er með ríkisábyrgð og því mætti telja eðlilegt að ríkið hefði greiðan aðgang að bókhaldi bankans og öllu því sem bankinn er að gera og ætti rétt að fá upplýsingar um það sendar jafnharðan og eitthvað mikið væri að gerast.

 

Getur ríkið ekki gert þetta?  

Ég er svo kröfuharður að fari bankarnir ekki eftir fyrirmælum ríkisins í einu og öllu þá sé ekki grundvöllur fyrir því að ríkis sé ábyrgðaraðili fyrir bankann. Þá er einnig hægt að spyrja sig ef hverju er ríkið ekki bara með bankastarfsemina sjálft. Áhættan hlýtur að vera mun minni. Vöruúrvalið hlýtur að verða einfaldara og þar af leiðandi minnkar áhættan enn meira. Af hverju þurfum við að einkavæða bankana, hvað græðir þjóðin á því? Hver segir að við þurfum að vera með afleiðuviðskipti? Hvers vegna eru við með fjárfestingastarfsemi í ríkistryggðum banka? Er það ekki mismunun?

                                           

Hvað sagði Seðlabankastjóri í þessari grein?

 „Hann rifjaði upp að á ráðstefnu SU­ERF fyr­ir tíu árum hefði auk­in kerf­isáhætta inn­an fjár­mála­kerf­is­ins verið til umræðu. Þá hefðu menn lýst þung­um áhyggj­um af því. Áhætt­an hefði hins veg­ar auk­ist til muna eft­ir ráðstefn­una, bæði hér á landi sem og í alþjóðlegu til­liti“.

Áhættan eykst en stefnan er einkavæðing með ríkisábyrgð

Við vitum að stefna ríksisins er að selja sinn hlut í bönkunum en samt vita þeir að það er hætta á að bankarnir misstígi sig aftur vegna fjárfestingastarfseminnar, vegna hárra launa, vegna vegna vegna. Við munum þetta allt en fallegu orð fjármálasnillinganna hljóma svo vel í eyrum og það er hægt að gera þetta að svo flóknu ferli, svo flóknum gjörningum að enginn skilur hvað er um að vera. Af hverju segji ég það ? jú, fyrir hrun þá var málið einfaldlega þannig að Fjármálaeftirlitið, ríkið og alþjóðlegar peningastofnanir skildu ekki fyrr en of seint að allt var komið á hausinn. Allt voru þetta tilbúnir gjörningar sem enginn skildi og enginn fattaði að væru bara innantóm orð.

 

Af hverju hækkum við ekki innustæðutrygginguna?

Eitt skil ég ekki en það er af hverju við hækkum ekki innustæðutrygginasjóðina. Heyrði að það væri ekki hægt að reka banka sem þyrfti að hafa of háa tryggingasjóði?????? Hmm, ælta ekki að setja mig inní það því ég þarf þess ekki, bönkunum finnst það einfaldara að ríkið taki bara ábyrgð.

 

Hvað segir reynslan?

Reynslan segir okkur að við eigum ekki að treysta stjórnendum bankanna, við eigum ekki að treysta starfsfólki bankanna og við getum ekki einu sinni treyst eftirlitsstofnunum á vegum ríkisins. Fjármálaeftirlitið brást algerlega í hlutverki sínu eða kannski hægt að segja að ríkið brást með því að hafa stofnunina undirmannaða. Er þá ekki nokkuð víst að við getum ekki látið þetta koma fyrir aftur. Bankarnir fóru sínu fram, yfirmönnum var ekki hægt að treysta og ríkið stóð eftir sem misnotað bákn og almenningur varð að taka á sig og fórna mörgu fyrir svik og léleg vinnubrögð örfárra.

 

Hvað gerir Seðlabankinn til að rétta hlut landsmanna vegna lélegra vinnubragða bankans?

Svar: Ekkert jákvætt, margt neikvætt, háir vextir svo fólkið greiði hagnað bankanna, gjaldeyrirshöft svo fjársterkir græði og svo framvegis.

 

Niðurstaða.

Lærdómur af bankahruninu? Mjög mikill

Framkvæmd og eftirfylgni ríkis og seðlabanka af áunnum lærdóm = enginn

Væri gott að velta þeirri spurningu upp af hverju? Er það hagur einhvers að ekki sé farið eftir þeim lærdóm sem áunnist hefur?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband